Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 16:01:28 (7063)

2001-04-30 16:01:28# 126. lþ. 115.14 fundur 648. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (atvinnurekstrarleyfi) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Mér finnst full ástæða til þess að vekja athygli á því, og þá rifja það upp fyrir þeim sem hafa gleymt eða ekki vita, að í vetur hefur farið fram umræða um fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi og tók hæstv. utanrrh. m.a. þátt í þeirri umræðu. Hann gerði það eftir að hafa verið sérstaklega til þess kvaddur vegna þess að hann hafði gefið yfirlýsingar sem draga mátti þær ályktanir af að hann væri þess sérstaklega fýsandi að þau mál væru tekin upp.

Það kom í ljós í umræðunni að a.m.k. á þeim tíma, þetta var fyrri hluta vetrar, var ekkert markvisst starf í gangi á vegum ríkisstjórnarinnar um endurskoðun þeirra reglna sem við búum við. Hins vegar kom skýrt fram að menn horfa auðvitað til þess að bæði er verðbréfaheimurinn að breytast með þeim hætti að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru komin á mun opnari markað með bréf sín en þau voru vegna NOREX-samstarfsins og einnig hitt að ýmislegt fleira getur kallað á þá og kallar auðvitað á það á hverjum tíma að þessir hlutir séu endurskoðaðir og séu í raun í sífelldri endurskoðun.

Umræðan í vetur spratt af því að við þingmenn jafnaðarmanna í Samfylkingunni erum og höfum verið með frv. þess efnis að sömu reglur giltu um allan fiskiðnað og það frv. er væntanlega til vinnslu í hv. efh.- og viðskn. En eins og menn þekkja gilda mismunandi reglur um möguleika útlendinga á þátttöku eftir því hvers lags vinnsla er. Ekki gildir það sama um reykingu og herslu og gildir um frystingu o.s.frv.

Það sem fyrir okkur vakti var að ein og sama regla gilti um allan fiskiðnað og að fiskiðnaður væri settur á sama bekk og annar iðnaður og ætti þess kost að sækja sér erlent áhættufé, ekki bara sem lánsfé, heldur líka sem hlutafé.

Mér fannst, herra forseti, fyrst að umræðan var komin út í þessa umfjöllun um fjárfestingar erlendra aðila, að rétt væri að rifja þetta upp.