Líftækniiðnaður

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 16:22:09 (7066)

2001-04-30 16:22:09# 126. lþ. 115.15 fundur 649. mál: #A líftækniiðnaður# (yfirstjórn málaflokksins) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um líftækniiðnað. Vissulega er frv. ætlað að taka til nýrrar tækni og nýrra auðlinda og nýrra möguleika sem lúta að líffræðilegum auðlindum, líffræðilegum erfðaauðlindum og tækni, líftækni, og rannsóknum á þessum sviðum og jafnframt líka hagnýtum rannsóknum og rannóknarleyfum og nýtingarleyfum.

Eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir kom inn á ræðu sinni get ég tekið undir það að hér er ætlunin að spanna býsna stórt svið án þess að það sé í rauninni gert með viðunandi hætti. Ætlunin er að spanna sviðið en síðan virðist mér því ekki vera fylgt eftir í sjálfum frumvarpstextanum.

Ef við lítum aðeins á hvernig þetta er núna, þá koma fleiri en eitt ráðuneyti að þessum málum. Þau ráðuneyti sem hafa kannski mest afskipti haft af þessum líftæknimálum eru að ég hygg jafnvel landbrn. og sjútvrn. vegna þess að megináherslan í líftækniiðnaði okkar eða atvinnustarfsemi sem byggir á líftækni hefur verið unnin á vegum þessara tveggja ráðuneyta. Þarna er m.a. minnst á erfðaauðlindirnar sem má skilgreina nokkuð vítt. Þær eru einmitt undirstaða þessara atvinnugreina. Þó svo að í frv. sé gert ráð fyrir því að beint hefðbundið kynbótastarf í landbúnaði sé undanþegið þá er ekkert til sem heitir hefðbundið kynbótastarf. Þar er í rauninni bara margbreytilegt líftækniferli á ferðinni og afar mikil einfeldni að ætla að afgreiða það í sjálfu sér með svo einföldum orðum. Ég vona að hæstv. ráðherra, sem þekkir til þessara mála, geri sér fyllilega grein fyrir því. Ég vil því benda á það að mér finnst þarna vera stokkið að vissu leyti út í poll, en ekki endilega vitað hvar landið er eða hvert skal svamla.

Ég vil t.d. velta því hér upp áður en farið er í vinnu á grundvelli þessa frv. að það verði hreinlega athugað formlega hvar verkefnin á vegum sjútvrn. og verkefnin á vegum landbrn. og stofnana þessara ráðuneyta skarast og hvar þau tengjast því að á þessi ráðuneyti og stofnanir þessa ráðuneyta er ekki minnst. A.m.k. hef ég ekki séð það, herra forseti, í þessu frv. Þó hafa þessi ráðuneyti og stofnanir hingað til borið meginhitann og þungann af því rannsóknar-, þróunar- og nýtingarstarfi sem hefur einmitt byggst á líftækniiðnaðinum. Ég tel alveg fráleitt að ekki sé minnst á það þannig að það verði þá skilgreindur hluti af heild í frv. til laga um líftækniiðnaðinn ef ætlunin er, sem væntanlega er, að þetta sé marktækt frv.

Ég vil líka velta því upp, herra forseti, að hér er lögð áhersla á forsjá iðnrn. í þessu máli og stofnana þess. Það er eiginlega rauði þráðurinn í gegnum þetta. Síðar er hér á dagskránni frv. til nýrra laga um Iðntæknistofnun. Er kannski hugmyndin, herra forseti, sem liggur á bak við þetta, að Iðntæknistofnun á vegum iðnrn. verði eins konar yfirrannsóknastofnun atvinnuveganna og taki yfir verkefni, bæði á vegum sjútvrn. og landbrn. og annarra rannsóknastofnana, sem tengjast þessu? Það liggur reyndar beint í orðanna hljóðan, þar sem þessi mál eiga öll að fara undir iðnrn. með þessum hætti og stofnanir þess, bæði þróun, rannsóknir og líka eftirlit. Vel má vera að þetta sé framtíðarsýn sem megi skoða. En það er mikil bjartsýni að ætla að leggja málið fram með svona einföldum hætti ef þetta er þá sú framtíðarsýn sem frv. ber augsýnilega með sér. Ég vildi minnast hér á þetta, herra forseti, því mér sýnist þetta vera augljóst.

Herra forseti. Ég tel líka að það eigi að setja heildstæða löggjöf um líftækniiðnaðinn sem taki á þessu og síðan megi þá deila ábyrgð á verkefnum út á ráðuneyti, eftir því hvernig því verður best fyrir komið, bæði með tilliti til þess hvar ábyrgðin er eðlilegust, hvar þekkingin er eðlilegust og er fyrir hendi o.s.frv.

Ég vil sérstaklega taka það fram, herra forseti, að mér sýnist að þetta séu hrá frumvarpsdrög sem lúta að þessum málaflokki, en nái ekki yfir hann á þann hátt sem ætlunin er í yfirskriftinni.

Ég bendi t.d. á af því ég þekki svo vel landbúnaðinn, landbúnaðarrannsóknir og landbúnaðarstarf, að það er að stórum hluta atvinnustarfsemi sem byggir á líftækni. Því þarf að fara ítarlega í gegnum það hvernig þessi verkefni eiga að skarast, þ.e. ábyrgð þeirra, rannsóknir og þróunarferill.

Með frv. einu og sér getum við ekki tekið það á okkur í fyrsta lagi að gjörbylta ríkjandi skipulagi og í öðru lagi fara út á mjög óskilgreindan veg um ábyrgð og eftirlit, þ.e. að þetta færist allt til iðnrn. eins og hér er lagt til.

Herra forseti. Þetta mál er í sjálfu sér afar mikið og merkilegt, en að mínu viti þarf það miklu ítarlegri umfjöllun og ítarlegri vinnu þannig að menn átti sig á því hvað hér er verið að vinna með og það nái að þroskast og verða tilbúið til þess að verða að lögum.