Iðntæknistofnun

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 16:42:52 (7071)

2001-04-30 16:42:52# 126. lþ. 115.16 fundur 650. mál: #A Iðntæknistofnun# (heildarlög) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Til þess að eyða öllum misskilningi þá er ég komin til þess að ræða um lagafrv. sem hæstv. iðnrh. var að mæla fyrir um Iðntæknistofnun Íslands.

Sú löggjöf sem hæstv. ráðherra var að mæla fyrir er í sjálfu sér ekki byltingarkennd, líti menn til þeirra laga sem í gildi eru, heldur er í rauninni verið að þróa gildandi löggjöf með tilliti til þess hvernig atvinnulífið hefur verið að breytast og verið að mæta þeirri þörf sem menn vita að er til staðar varðandi þátttöku í frumstigum nýsköpunar atvinnulífsins og einnig að sýna þann pólitíska vilja sem er fyrir hendi til að veita frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum þá nauðsynlegu þjónustu sem krafa er gerð um í nútímasamfélagi, í því tæknisamfélagi sem við búum í. Frv. gengur í sjálfu sér ekki lengra. Þetta er meginviðfangsefni þess. Í sjálfu sér má taka undir það sem hér kemur fram og nauðsyn þess að á þessu sviði sé brugðist við hvað varðar þróun atvinnulífsins eins og öðrum.

Rakið er í greinargerð frumvarpsins hvernig þessi löggjöf hefur þróast og hvernig starfsemi Iðntæknistofnunar greinist. Vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram áðan um líftækniiðnaðinn er eðlilegt að rifja upp að auðvitað hafa líftæknirannsóknir og þar með það sem kallað hefur verið líftækniiðnaður --- orðið iðnaður teygir sig nú orðið býsna víða --- átt ákveðna vöggu hjá Iðntæknistofnun. Þar vil ég nefna fyrirtæki sem heitir Prokaria sem byrjaði eða þróaðist allt frá árinu 1985 í tengslum við Iðntæknistofnun og þróaði líftækniiðnað á sviði hitakærra örvera eða vann með hveraörverur. Auðvitað er það því þannig að þó svo að löggjöfin hafi kannski mátt lesast þannig að fyrst og fremst ætti Iðntæknistofnun að fást við hefðbundnar iðngreinar hefur stofnunin að sjálfsögðu teygt sig víðar eins og reynslan sýnir.

[16:45]

Jafnframt kemur fram í greinargerðinni að Iðntæknistofnun er með einum eða öðrum hætti að teygja anga sína víðar en bara á höfuðborgarsvæðinu eða í því húsi sem hér er henni merkt. Verið er að vinna að og það hafa verið stofnuð frumkvöðlasetur sem Iðntæknistofnun styður víðar um landið. Hér kemur fram að unnið sé að stofnsetningu frumkvöðlagarðs fyrir fyrirtæki á sviði efna- og líftækni.

Mér finnst þegar ég les þetta, herra forseti, að ég hafi heyrt hæstv. ráðherra segja, eða jafnvel að það komi fram í stefnumótun ráðherrans fyrir ráðuneytið á næstu árum, að slíkur garður á sviði efna- og líftækniiðnaðar ætti að vera á Akureyri. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra vildi þá greina örlítið frekar frá hugmyndum sínum um það hér. Ég minnist þess ekki að það hafi verið rætt hér í þinginu, en ég held að þetta komi fram í stefnumótun fyrir ráðuneytið eða í þeim áherslum sem ráðherrann hefur birt.

Það kemur hér fram um efni frumvarpsins að nýsköpun sé sérstakt áhersluatriði vegna þess að nýsköpun atvinnulífsins sé undirstaða efnahagslegra og félagslegra framfara í þjóðfélaginu. Við viljum gjarnan að það sé gert kleift eftir ýmsum leiðum að taka nýja tækni inn í okkar atvinnulíf, að hér verði til fyrirtæki sem takast á við og nýta þá tækni sem nýjust er og geta tekist á við breytingar í atvinnulífi okkar og þróað. Því viljum við að sjálfsögðu sjá þá hluti sem nefndir eru í þessu frv. hvað varðar hlut Iðntæknistofnunar varðandi þróun nýrrar tækni og hugmynda. En ég vil líka, herra forseti, vekja athygli á till. til þál. sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Þar viljum við að skoðað sé hvort ekki sé rétt að á Íslandi verði teknir upp stofnstyrkir sambærilegir þeim sem Evrópusambandið, Noregur og fleiri ríki, hafa tekið upp til þess að kalla til sín fyrirtæki sem búa yfir nýrri tækni til þess að aðstoða við breytingar í sínu atvinnulífi.

Það er alveg ljóst að við þurfum með ýmsum hætti að þróa okkar atvinnulíf og styrkja þá þróun sem við viljum sjá. Sannarlega væri eitt af því að við tækjum upp þá breytni að nýta stofnstyrki með sambærilegum hætti og aðrar þjóðir gera, þær þjóðir sem við að öðru leyti erum í samkeppni við.

Vitað er að fyrirtæki sem vilji var til að yrðu stofnsett á Íslandi enduðu annars staðar vegna þess að þar buðust þeim slíkir styrkir. Það er skoðun okkar og þeirra sem hafa farið yfir þessi mál að þarna sé um mun virkari aðgerð að ræða ef menn vilja hafa áhrif á þróun atvinnulífsins og ef menn vilja koma með skapandi hætti að þeim atvinnuháttabreytingum sem eru að eiga sér stað heldur en þær hugmyndir um skattaívilnanir eða slíkar breytingar sem jafnan er rætt um.

Herra forseti. Ég vildi vekja athygli á þessu í þessu samhengi vegna þess því að við þurfum að huga að því á ýmsum sviðum hvernig við komum að atvinnulífi okkar, hvernig við leggjum grunninn að þeirri efnahagslegu hagsæld sem við viljum sjá á Íslandi og hvernig við þá búum í haginn fyrir komandi kynslóðir. Ég lít svo á, herra forseti, að þetta frv. til laga um Iðntæknistofnun Íslands sé skref í þá átt. Auðvitað þarf að skoða betur það sem til nýbreytni horfir og það verður gert í hv. nefnd þar sem ég á sæti.

Ég vildi einnig bæta því við að það er sjálfsagt og eðlilegt og það er einnig á forræði hv. iðnn. að skoða hvort við eigum ekki á breiðari grundvelli eða með enn fleiri leiðum að takast á við breytingar í atvinnulífinu og koma með skapandi hætti að því hvernig atvinnulíf okkar er að þróast og reyna þá að hafa þar áhrif á að hér verði til fyrirtæki sem vísa fram á veginn og við sjáum að eru að fást við eða takast á við atvinnugreinar nýrrar aldar.