Verðmyndun á grænmeti

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 10:01:13 (7073)

2001-05-02 10:01:13# 126. lþ. 116.91 fundur 503#B verðmyndun á grænmeti# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[10:01]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs er sú að dregið hefur til tíðinda í máli sem hér hefur verið til umræðu síðustu vikur á hinu háa Alþingi, þ.e. máli sem tengist gríðarlega háu verði á grænmeti. Orsök þeirra umræðna hér, herra forseti, var skýrsla samkeppnisráðs sem, eins og menn muna, leiddi í ljós að þar var um að ræða ólögmætar samkeppnishömlur og ólöglegt samráð heildsala á grænmetismarkaði. Kvað svo rammt að þeirri háttsemi þeirra að samkeppnisráð talaði um samsæri gegn hagsmunum neytenda.

Í skýrslunni fólst og áfellisdómur yfir landbrn. sem samkeppnisráð sagði að hefði með umdeildri túlkun sinni á toll\-ákvæðum laga skapað skjól fyrir grænmetisokur heildsalanna. Það er því alveg ljóst að landbrn. ber ákveðna siðferðilega ábyrgð á þessari þróun. Hæstv. landbrh. hefur fyrir sitt leyti gengist við þeirri ábyrgð með því að lýsa því þráfaldlega yfir í þessum ræðustól að hann hygðist beita sér fyrir því að lækka það sem flokksbróðir hans, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, kallaði okurtolla á innfluttu grænmeti. Hæstv. ráðherra hefur margsinnis lýst því yfir að hann muni íhuga að lækka tolla. Hann skipaði á sínum tíma nefnd sem menn bjuggust við að mundi ekki skila af sér strax. Hún vélaði einmitt um verðlagningu á grænmeti.

Nú hefur þessi nefnd skilað áfangaskýrslu. Þar er m.a. lagt til, herra forseti, að tollar verði felldir niður á vörum sem eru ekki framleiddar hérlendis. Þetta á fyrst og fremst við vörur sem eru ekki í samkeppni við innlenda framleiðslu, þ.e. iceberg-kál, ýmsar tegundir lauka, kúrbít, eggaldin og fleira sem í dag ber um 30% toll og í mörgum tilfellum magntoll að auki.

Það var mat starfshópsins að skila þyrfti þessari áfangaskýrslu þar sem tollamálin krefjast lagabreytinga sem af hálfu hópsins er vonast til að verði samþykktar fyrir þinglok. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hyggst hann verða við tilmælum nefndarinnar sem hann setti á fót til að véla um verðlagningu á grænmeti?