Verðmyndun á grænmeti

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 10:03:28 (7074)

2001-05-02 10:03:28# 126. lþ. 116.91 fundur 503#B verðmyndun á grænmeti# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[10:03]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til að taka undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Það er eðlilegt að þingmenn óski eftir því að ummæli starfshópsins og óskir hans verði ræddar. Það ríður á að hv. þm. fái að vita til hvaða aðgerða hæstv. landbrh. ætlar að grípa. Það er rétt að í þessu máli hvílir siðferðileg ábyrgð á herðum hæstv. landbrh..

Ríkisstjórnin hefur sett sér manneldismarkmið. Þau eru metnaðarfull en það er staðfest að eftir þeim hefur ekki verið farið. Það er sjálfsagt að hv. þm. fái að heyra hvers vegna manneldismarkmiðunum hefur ekki verið náð. Þau tengjast sannarlega þessum háu tollum á grænmeti. Þó verð lækki á grænmeti þá verður að tryggja að grænmeti verði áfram ræktað á Íslandi. Þingheimur hefur rétt á að fá að vita hvernig hæstv. ráðherra ætlar sér að tryggja slíkt, hvernig hann ætlar að hreyfa sig í þessu máli. Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið. Þingheimur á rétt á að fá að vita hvernig hæstv. landbrh. ætlar að bregðast við vinnu starfshópsins.