Verðmyndun á grænmeti

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 10:04:48 (7075)

2001-05-02 10:04:48# 126. lþ. 116.91 fundur 503#B verðmyndun á grænmeti# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[10:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni segja að allt er þetta mál á vinnslustigi. Tillögur liggja nú fyrir frá nefnd sem skipuð var til samráðs. Hins vegar vil ég segja við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ekki síst eftir að hafa lesið grein hans í DV, að ég er undrandi á Samfylkingunni að senda þann mann fram í þessa umræðu sem ekkert veit um málið og talar alls staðar eins og Jón sterki: ,,Sástu hvernig ég tók hann?`` Það er vart hægt að eiga orðastað við menn sem skrifa og tala eins og hv. þm.

Eitt er að tala, þar missa menn oft margt út úr sér. En að setjast yfir hugverk eins og skrifaða grein, þar geta menn vandað sig og skrifað af meiri þekkingu en fram hefur komið í málflutningi þessa hv. þm. Ég hef því lítinn áhuga á að eiga orðastað við hann um þessi mál og segi hér eins og Hallbjörn í Njálu: ,,Illt er að eiga þræl að einkavin.`` Þannig er málflutningur þessa hv. þm.

Ég vil segja þingheimi að ég vinn að því fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að koma því til leiðar sem stendur í skipunarbréfi starfshóps sem ég skipaði, að framleiðslumöguleikar íslenskrar garðyrkju verði tryggðir og verð á gróðurhúsaafurðum og garðávöxtum til neytenda lækki. Þetta verður gert. Þessi vinna er í gangi og um hana mun nást samstaða.

Ég tel, hæstv. forseti, eðlilegra að ræða svo stór mál sem þessi undir öðrum lið í þinginu. Ég hef ekki þann tíma til að fara yfir málið sem ég þyrfti hér á tveimur mínútum. Ég er tilbúinn til umræðna og átaka við hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég er undrandi á Samfylkingunni að nýta ekki þá til umræðunnar sem eitthvert vit hafa á alþjóðasamningum eða landbúnaðarmálum yfir höfuð.