Afbrigði

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 10:15:31 (7079)

2001-05-02 10:15:31# 126. lþ. 116.95 fundur 507#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[10:15]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil mótmæla því að þessi mál séu tekin á dagskrá. Ég mótmæli þeim vinnubrögðum að fara fram á atkvæðagreiðslu um afbrigði við því að þessi stóru mál sem hér eiga í hlut komi á dagskrá eftir að meira en mánuður er liðinn frá því að venjulegur frestur fyrir framlagningu þingmála rann út. Hér er ekki um smámál að ræða sem sést best á því að stjórnarflokkarnir þurftu sjálfir til þess nokkra mánuði að hnoða saman afstöðu sinni í málinu. Skýrsla einkavæðingarnefndar um Landssímann kom út í janúar en nú er upp runninn maímánuður og stjórnarflokkarnir þurftu mestallan þennan tíma til að koma sér saman um einhverja línu í málinu og ná samkomulagi um að leggja frv. þar að lútandi fram.

Þar af leiðandi, herra forseti, liggur í hlutarins eðli að það er hrein lítilsvirðing við Alþingi að fara fram á afbrigði við því að þessi stóru mál komist nú fyrst á dagskrá í maí þegar nokkir virkir dagar eru eftir af venjulegum fundatíma Alþingis. Ég spyr hæstv. forseta hvort forsetar hafi rætt það við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hvað standi í vegi þess að málið bíði haustsins. Ég fór fram á það í umræðum um störf þingsins fyrir nokkrum dögum að forsetar tækju það upp við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hvort Alþingi þyrfti að afhjúpa sig með slíkum vinnubrögðum, sem það auðvitað verða, að hroða þessum stóru og umdeildu málum í gegnum þingið á nokkrum sólarhringum. Það er ekki von til, herra forseti, að vel gangi og almennt sé borin virðing úti í þjóðfélaginu fyrir vinnubrögðum þingsins þegar menn leggja sig á borðið og berhátta sig líkt og í stefnir í þessu máli

Hverjum dettur í hug að halda því fram, herra forseti, að það séu sómasamleg vinnubrögð að ætla sér nokkra sólarhringa í að afgreiða þetta stóra mál? Ég beini því til virðulegs forseta að hafi forsetar þingsins ekki nú þegar rætt það við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að þessum málum verði frestað þá geri þeir það. Mér sýnist, herra forseti, augljóst að ef það verði ekki þá sé bara annað tveggja í stöðunni, að henda starfsáætlun Alþingis og láta eins og hún hafi aldrei verið til og sætta sig við að þingstörfin geti þess vegna staðið fram a Jónsmessu eða svo eða þá kyngja því að hér sé komið í gang færiband á tvöföldum hraða og bandstjórinn ýti nú á starthnappinn eftir nokkrar sekúndur.