Afbrigði

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 10:19:19 (7081)

2001-05-02 10:19:19# 126. lþ. 116.95 fundur 507#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), ÖS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[10:19]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði áðan hvað kæmi í veg fyrir að þetta mál verði látið bíða haustsins. Hæstv. forseti hefur tjáð þingheimi að það eina sem kemur í veg fyrir það sé einbeittur vilji hæstv. samgrh. Tæknilega er ekkert sem kemur í veg fyrir það, herra forseti.

Ég vísa til þess að formaður einkavæðingarnefndar hefur sagt í fjölmiðlum að það sé ekki hundrað í hættunni þótt sala Símans dragist fram á haustið. Ég er honum sammála um það. Þetta er eitt margbrotnasta málið sem komið hefur fyrir þingið á þessu ári. Til þess að sinna sínum stjórnarskrárbundnu skyldum þurfa þingmenn tíma til að brjóta það til mergjar. Til stendur að svipta þá tækifærinu til að vinna vinnuna með þeim hætti sem þeir hafa skrifað undir eiðstaf að þeir ætli sér að gera. Málið er það flókið að það tók þingflokk Framsfl. þrjár vikur, bara að afgreiða það út úr þingflokki sínum. Þannig er alveg ljóst að það er óðs manns æði að ætla þinginu að fara í gegnum málið á sex virkum þingdögum.

Herra forseti. Ég vísa til orða formanns einkavæðingarnefndar og það gerir þingflokkur Samfylkingarinnar sem greiðir atkvæði gegn því að afbrigði verði veitt.