Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:05:36 (7098)

2001-05-02 11:05:36# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:05]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Margir samverkandi þættir valda ákvörðun ríkisstjórnarinnar um sölu Símans. Í fyrsta lagi, eins og ég kom að í ræðu minni, þá eigum við ekki að standa í samkeppni við einkafyrirtæki á þessum markaði. Í annan stað hljótum við að velja tíma til sölu sem er hagstæður og eðlilegur þegar litið er til verðs á þessum fyrirtækjum, og svo að hinu leytinu eigum við auðvitað ekki að selja nema salan hafi góð áhrif á hið almenna efnahagslega umhverfi.

Ég held því að hv. þm. geti verið mér sammála um að sala --- og það bendir allt til þess --- á hlut Símans núna hafi góð áhrif á efnhagslífið. Geta þá hv. þm. Vinstri grænna ekki bara verið sáttir við að við veljum þann tíma? Ég held að það geti ekki verið neitt verra að það fari saman.