Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:30:12 (7102)

2001-05-02 11:30:12# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:30]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson lagði mjög út af mismælum mínum hér í ræðunni og taldi að ég hefði sagt að þess væri að vænta að hlutabréfamarkaðurinn kæmist á ný í þær hæðir sem var á sl. ári. Hið rétta er að ég sagði í ræðu minni og endurtók leiðréttinguna að ég teldi þess væri vart að vænta, það sagði ég í ræðu minni, að hlutabréfamarkaðurinn kæmist á ný í þær hæðir sem var á sl. ári, þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar næsta ræða verður flutt, sem hefur verið boðuð nú þegar.

Á hitt er að líta að hv. þm. sagði að Síminn hefði verið mun meira virði fyrir ári eða svo, 40--60 milljarðar. Og þá telur hann að við höfum gert reginfirru og mikla skyssu að hafa ekki selt almenningi í landinu hlutabréf í fyrirtækinu, kannski hverju einasta heimili á Íslandi hlutabréf í fyrirtæki sem var ofmetið. (Gripið fram í: Þú vildir það.) Hvar stæðum við frammi fyrir því fólki í dag?

Þess vegna tel ég að það hafi verið eðlilegt og skynsamlegt að fara að öllu með gát, undirbúa þetta mjög vel og vera ekki að selja þegar markaðurinn var að verðleggja fyrirtæki í ríkiseigu með óraunhæfum hætti. Ég tel því að mun skynsamlegra sé að ganga til sölunnar þegar verð er talið vera eðlilegt, í þessu tilviki verð á ríkisfyrirtæki.