Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:41:21 (7109)

2001-05-02 11:41:21# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég reyndi að útskýra í ræðu minni áðan, að tök Landssímans á dreifikerfinu veiti fyrirtækinu yfirburðastöðu sem er í reynd einokun. Og ég tel að frv. þetta, ef að lögum verður, tryggi þessa stöðu. Þannig er hægt að halda því fram að þarna verði áfram um að ræða lögverndaða einokun. Hvort hún sé hins vegar lögvernduð einokun í krafti fjarskiptalaga skal ég ekkert um segja, enda þekkir hv. þm. þau talsvert betur en ég.

En ég held því fram að hæstv. samgrh. sé að reyna að þröngva í gegn lögum sem tryggja einokun Símans vegna yfirráða fyrirtækisins á dreifikerfinu. Ég vona að þetta svari spurningum hv. þm. Honum tókst alla vega ekki að negla mig alveg jafnharkalega og hann ætlaði sér.