Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 12:02:55 (7111)

2001-05-02 12:02:55# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[12:02]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti hér mikla harmatölu og þá sérstaklega vegna þess að ekki væri lengur sú tíð sem var á árunum 1979 og næstu árum þar á eftir í stjórnarfari á Íslandi.

Ég held að allir sem fylgjast með stjórnmálum í okkar ágæta landi fagni því alveg sérstaklega að þeirri tíð lauk og upp rann tími sem hefur fært okkur Íslendinga fram í efnahagslegu tillit til þeirrar stöðu að eftir er tekið um víða veröld. Ég held að það sé ekki trúverðugt hjá hv. þm. að vitna til þeirrar tíðar sérstaklega.

Hann undraðist að ég sem samgrh. og minn flokkur værum tilbúin til þess að standa að einhverju jöfnunargjaldakerfi. Ég vil nú bara minna á það að samkvæmt fjarskiptalögum og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun er gert ráð fyrir því og ein kannski merkasta staðreyndin um það er að við höfum lagt til kostnað vegna svokallaðrar strandstöðvaþjónustu sem er þjónusta við fiskiskipaflotann við strendur landsins, sem af augljósum ástæðum öryggishagsmuna verður ekki verðlögð sérstaklega til þeirra sem þurfa að njóta þeirrar þjónustu. Þess vegna tökum við það út fyrir og greiðum beint úr ríkissjóði. Ég tel að það sé nauðsynlegt að minnast á þetta vegna orða hv. þm.

Auðvitað verðum við hins vegar fyrst og fremst að átta okkur á því að hér eru fleiri fyrirtæki í landinu sem keppa á þessum fjarskiptamarkaði og okkur er ekki fært og ekki heimilt að mismuna þeim.