Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 12:05:13 (7112)

2001-05-02 12:05:13# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[12:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hæstv. samgrh. er undir áhrifum af afmælishátíðahöldunum, trúarhátíðinni miklu sem hér var haldin um helgina í tilefni af tíu ára valdatíð Davíðs Oddssonar. Hún var í trúarhátíðarstíl öll sú mærð sem þar var flutt og auðvitað rógurinn um allt sem aðrir hafa nokkurn tíma gert á undan. En munurinn á stjórnarfarinu á þeim árum og því sem nú er var m.a. sá að þá var vilji til þess að beita stjórntækjum ríkisins og opinberum fyrirtækjum og stofnunum, m.a. almenningsþjónustustofnunum eins og Pósti og síma, í þágu jöfnunar þegna þjóðfélagsins. Þannig var það t.d. með Póst og síma að þegar sá sem hér talar kom í samgrn. var verðmunur á langlínusamtölum annars vegar og innanbæjarsímtölum hins vegar 1:8. Þegar ég fór þaðan hygg ég að hann hafi verið 1:3 og sú stefna hafi verið mótuð að gera landið allt að einu gjaldsvæði. Þetta var hægt að gera og var einfalt vegna þess að um var að ræða eitt öflugt, opinbert almenningsþjónustufyrirtæki. Það sem ég er að leggja áherslu á hér, burt séð frá því hvort ég nefni einhver ártöl, er að það er hægt að beita þeim með þeim hætti og það hefur verið gert áfram að ýmsu leyti. Þegar þau eru hins vegar einkavædd missa menn þessi tæki úr höndunum og þá fara menn út í brambolt af því tagi sem núverandi fjarskiptalög og þetta frv. vísar til með jöfnunargjöld o.s.frv. Ég er að sjálfsögðu ekki andvígur því að þeim verði beitt og það er skárra en ekki þegar svo er komið að það er búið að einkavæða. En það sem ég er að benda á er að til eru aðrir möguleikar.

Að sjálfsögðu mátti gera ýmsar breytingar á Landssímanum og skoða einstaka þætti rekstrar hans án þess að fórna sjálfu grundvallarfyrirkomulaginu, að opinbert fyrirtæki ætti dreifikerfið og væri með almenna þjónustu á þessu sviði. Ég hefði ekkert grátið það óskaplega þó að menn hefðu skoðað t.d. GSM-hlutann eða eitthvað því um líkt þar sem raunveruleg samkeppni er þegar orðin til staðar. Það er allt annað en það sem við erum að tala um hér.