Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 12:34:31 (7117)

2001-05-02 12:34:31# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[12:34]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þann sóma sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sýnir mér með því að varðveita ræður mínar.

Grundvallaratriði í þessu og það sem ég varaði við og vara að sjálfsögðu við á hvaða sviði sem er er að svokallað Microsoft-ástand skapist. Það má ekki skapast á neinu sviði. Við heyrum það t.d. af matvælasviðinu hvernig staðan er þar og hefur komið hér ítrekað til umræðu.

Það sem hefur gerst að undanförnu og ég reyndi að draga fram hér er að búið er að aðgreina ákveðna þætti í rekstrinum. Það liggur fyrir að þetta Microsoft-ástand er ekkert til staðar af því samkeppnisaðilarnir eiga frjálsan aðgang að netinu. Það sem hefur gerst er að ég hef reynt að kynna mér málið hjá sérfræðingum, hjá samkeppnisaðilum. Þetta er einfaldlega niðurstaðan, þ.e. að sú hætta sem ég óttaðist er ekki til staðar.

Þar að auki vísa ég til þess sem ég sagði um gildi Samkeppnisstofnunar og Fjarskiptastofnunar til að fylgjast með þessum þáttum.