Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 12:39:21 (7121)

2001-05-02 12:39:21# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[12:39]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Einkunnagjöf hv. þm. er í samræmi við málflutning hans oft í þingsal og er auðvitað honum sjálfum og þingi til skammar. En ég held að rétt sé að vekja athygli hv. þm. á því að framfarir í fjarskiptum eru alveg gífurlega hraðar og sennilega hraðari en rúmast hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. En það er nákvæmlega það sem gerst hefur á einu ári ef hv. þm. skoðaði hvað hefur gerst á fjarskiptasviðinu á einu ári hvað þá á fimm árum en það eru ótrúlegar framfarir.

Af því hv. þm. nefndi það að hér væri verið að fara í samstarf við útlendinga þá er það svo að á fjarskiptasviðinu er sennilega alþjóðlegasta umhverfið. Hvort sem hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni líkar betur eða verr þá er tæknin orðin það ör og það fullkomin að menn loka sig ekki af einangraðir norður í Dumbshafi þó að þeir fegnir vildu.

Menn hafa skoðað þetta í mínum flokki sem og í öðrum flokkum, sumum a.m.k., og taka afstöðu miðað við þá þróun sem hefur átt sér stað á tæknisviðinu og þá þróun sem á sér stað úti í atvinnulífinu. Það skiptir kannski mestu máli.