Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 12:43:23 (7124)

2001-05-02 12:43:23# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[12:43]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði áðan að hraði framfara í fjarskiptum væri mikill. Það kann að vera rétt en hann er samt ekki jafnmikill í fjarskiptunum og hraðinn er á skoðanaskiptum hv. þm.

Herra forseti. Ég vil mælast til þess við hv. þm. að hafa aðgát í nærveru sálar og biðja menn um að húðstrýkja ekki hv. þm. eins og búið er að gera hér í dag. Við verðum að virða honum það til vorkunnar að það kann að vera langt í gagnaflutningakerfinu hjá honum en eins og bent hefur verið á, hefur hann uppgötvað að sett voru lög um fjarskipti hér áður fyrr. Þau lög, sem voru í gildi þegar hv. þm. var með yfirlýsingar sínar, notar hann núna til þess að skipta algjörlega um skoðun.

Hver var það sem sagði, herra forseti: ,,Fákeppni er einfaldlega talin geta drepið í dróma alla eðlilega þróun og skapað hinu drottnandi fyrirtæki hættulega einokunaraðstöðu er bitni endanlega á veskjum neytenda.``

Hver var það sem sagði: ,,Of stórt og ráðandi fyrirtæki er einfaldlega talið hafa skaðleg áhrif á þróun markaðar og beinlínis geta unnið gegn hagsmunum neytenda til lengri tíma litið.``

Svo kemur þessi hv. þm. og stendur hér á hóli drambsins og fellur beint á bólakaf í dýið. Og ekki í fyrsta skiptið.