Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 12:53:42 (7132)

2001-05-02 12:53:42# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[12:53]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Ég hef ekki sömu áhyggjur og hv. þm. hvað þetta varðar. Ég er heldur ekki sammála því að líkja eigi þessu við flugið. Ég deili þó með honum áhyggjunum af fluginu, eins og ég nefndi áðan. Ef menn ætla að jafna aðstöðuna hvað flugið varðar þá erum við að tala um beina ríkisstyrki til þess. Það er þá umræða sem á eftir að fara fram.

Ég vek hins vegar athygli á því að tækniþróunin hefur m.a. leitt til þess að fjölmörg smærri fyrirtæki, sem eru ekki að leggja í neinn verulegan kostnað, eru að hasla sér völl á ýmsum þáttum fjarskipta. Þau eru hvorki mannfrek né fjárfrek og það byggir einfaldlega á því sem reynt hefur verið að draga hér fram, að tæknin á þessu sviði er svo ótrúlega ör. Það er hún sem leiðir til hinnar hörðu samkeppni.

Auðvitað eru það landsmenn sem borga eins og í allri þjónustu. Við erum að borga fyrir þjónustuna í dag en verðið er með því lægsta sem þekkist í veröldinni. Ég tel því ekki ástæðu til að óttast þetta og minni enn á hlutverk Fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar.