Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 13:51:32 (7134)

2001-05-02 13:51:32# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna ræðu hv. þm. vil ég undirstrika að þræðirnir þrír af átta sem eru á vegum NATO eru ekki tengdir inn í símstöðvakerfið og eru algerlega aðskildir frá hinu almenna fjarskiptakerfi. Það er því ekki hægt að líkja því við kerfið að öðru leyti.

Hv. þm. talaði mjög mikið um einokun. Þarna kemur einmitt að grundvallaratriði. Það er engin einokun á ferðinni. Hv. þm. á að þekkja það að skv. 20. gr. fjarskiptalaganna er skylda markaðsráðandi fyrirtækis að hleypa að heimtaug. Það eru sérstök ákvæði þar um þannig að það er fjarri lagi að tala um einokun í því sambandi. Þetta er einmitt eitt af grundvallaratriðunum í því að koma á samkeppni. Hin fjarskiptafyrirtækin, sem eru í samkeppni við Símann, hafa lögvarinn rétt til að komast inn á heimtaugina hjá hverju einasta heimili í landinu. Eins og hv. þm. nefndi réttilega munu þau ekki grafa upp heim að hverju einasta húsi í landinu vegna kostnaðar.

Ég vil vekja athygli á því að Rannsókna- og háskólanet Íslands hf. bauð út þjónustu sína og það var Fjarski, sem er í eigu Landsvirkjunar, sem bauð lægst og er kominn í viðskipti þannig að í gagnaflutningunum er samkeppni. Landssíminn réð ekki við Fjarska í þessu tilviki og þess vegna var það að háskólanetið, fræðslu- og háskólanetið, er í viðskiptum við það fyrirtæki.