Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 14:29:25 (7144)

2001-05-02 14:29:25# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Í yfirgripsmikilli ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar var eitt atriði sem ég vildi minnast á. Hann talaði um að samkeppni hefði lækkað verð. Það á sannarlega við um vissa þætti þjónustunnar en ekki alla.

Við skulum rifja það upp þegar Landssíminn lét reikna út hvað heimtaugagjaldið ætti að hækka við að önnur fyrirtæki fengju að kaupa aðganginn. Áður fyrr var fastagjaldið í kringum 500 kr. en er núna 1.111 kr. Þar var farið eftir útreikningum Landssímans á kostnaði af margafskrifuðum koparlínum sem vafalaust voru að megninu til lagðar fyrir 30--40 árum. Niðurstaðan varð þessi: Stórhækkun á þessum gjöldum sem kom sérstaklega illa við aldraða og öryrkja og reyndar notendur alla. Hæstv. samgrh. kvaðst ekki undrast viðbrögð við hækkun gjaldsins og var ekkert hissa á hörðum viðbrögðum við þessari stórhækkun. Þetta gerir Landssíminn hins vegar vegna þess að hann hefur afnot af þessu stofnlínukerfi og grunnnetinu og getur þannig reiknað þetta upp til að selja öðrum sem veita fyrirtækinu samkeppni. Þetta er einokun og ekkert annað.

Það eru þessi atriði sem ég vildi gera athugasemdir við, herra forseti, og spyrja hv. þm.: Viljum við kalla þetta yfir okkur? Væri ekki betra að halda grunnnetinu sér þannig að allir fái aðgang að því að kaupa þar þjónustu í stað þess að einn aðili á samkeppnismarkaði verðleggi þessa þjónustu og stórhækki hana um á annað hundrað prósent vegna þess aðrir eiga að fá að veita þessa þjónustu? Ég er auðvitað sammála því að öll fjarskiptafyrirtæki eigi þar aðgang, ekki ætlum við að láta öll fjarskiptafyrirtæki í landinu fara að grafa línur um landið þvers og kruss.