Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 14:35:41 (7147)

2001-05-02 14:35:41# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Næstsíðasta setning hv. þm. gerði það að verkum að ég var nærri því hættur við að koma hér í andsvar. Hv. þm. sagði: Ég er sammála því hvernig þetta er gert, ég vil bara ekki að Landssíminn leggi fram útreikningana.

Hvernig á þetta að vera hægt öðruvísi? Verður ekki það fyrirtæki sem um er vélað að leggja fram útreikninga sína til þess að menn geti sannreynt hvort þeir séu réttir eða rangir? Er það þá ekki gert þannig að Póst- og fjarskiptastofnun yfirfari þetta með sérfræðingum sínum? Þetta er sú stofnun sem hefur mest vit á þessu í okkar þjóðfélagi. Við getum ekki gert ráð fyrir því að aðrir geti farið betur í forsendur verðsins en einmitt Póst- og fjarskiptastofnun.

Við skulum aðeins reyna að fylgja þessu eftir rökrétt. Við skulum ímynda okkur að staðan sé sú sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilja, að ríkið eigi grunnnetið, að það selji fyrirækið og ríkið eigi ekki símafyrirtæki en eigi þetta grunnnet. Hvernig mundi það gerast nákvæmlega? Yrði þetta ekki gert nákvæmlega svona? Yrði ekki þetta ríkisfyrirtæki, sem ætti grunnnetið og þessar heimtaugar, að leggja fram útreikninga fyrir heimtaugargjaldinu? Yrði það ekki að fara eftir tilskipunum Evrópusambandsins og vinna innan þeirra reglna sem EES-svæðið gefur okkur? Yrði það ekki þess vegna að hlíta þeirri niðurstöðu sem Póst- og fjarskiptastofnun kæmist að? Vitaskuld, virðulegi forseti.

Með öðrum orðum, sú aðferð sem hv. þm. er hér að leggja til varðandi sölu Landssímans mundi engu breyta um þetta tilvik. Hv. þm. yrði bara í nákvæmlega sömu stöðu. Ríkisfyrirtækið, sem í dag heitir Landssíminn, ætti grunnnetið og mundi leggja fram útreikninga sína. Póst- og fjarskiptastofnun mundi yfirfara þá og komast að þeirri niðurstöðu að þar væri 46 kr. mismunur og lækka gjaldið sem því svaraði. Hv. þm. hefur gagnrýnt tiltekið ástand en lagt fram lausn sem breytir engu.