Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 16:21:11 (7155)

2001-05-02 16:21:11# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[16:21]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Með fjarskiptalögum og ákvæðum um eftirlitsstofnanir á sviði fjarskipta er verið að setja leikreglur um þessa atvinnugrein. Það eru leikreglur um ýmsar atvinnugreinar, t.d. á viðskiptasviði o.fl., og auðvitað er fyllilega eðlilegt og rökrétt að setja slíkar leikreglur um þetta svið, ekki síst eftir þær breytingar sem urðu t.d. 1. jan. 1998 þegar innleidd var samkeppni á fjarskiptamarkaði. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að slíkar leikreglur séu settar í því tilefni.

Fjarskiptalöggjöfin sem er í gildi í dag er í raun og veru rammi sem er settur utan um samkeppni á þessu sviði. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að ég tel að fjarskiptalöggjöfin skapi forsendur og grundvöll fyrir því að farið sé út í þá framkvæmd sem hér er lagt til, þ.e. að einkavæða Landssímann á samkeppnismarkaði.