Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 16:24:30 (7157)

2001-05-02 16:24:30# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[16:24]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sagt að ég tel að fjarskiptalöggjöfin tryggi það sem menn hafa áhyggjur af í þessu máli, þ.e. að Landssíminn starfi hér með einhverja einokunaraðstöðu. Hvort sem það er gert af þessu tilefni eða einhverju öðru þá er staðreyndin sú að ákvæði laganna tryggir þetta og mér heyrist við reyndar vera sammála um það, ég og hv. þm.

Í öðru lagi vil ég segja að vaxtarbroddar á sviði fjarskipta hafa aldeilis verið að þróast og þroskast. Samkeppnisaðilar Landssímans, sem hafa sprottið upp á síðustu kannski tveimur árum, hafa aldeilis verið að auka markaðshlutdeild sína á ýmsum sviðum fjarskipta, ekki bara á GSM-sviðinu heldur ýmsum öðrum sviðum. Það sýnir okkur auðvitað að þessi innleiðing samkeppninnar hefur gert það að verkum að mikill vöxtur hefur orðið á þessu sviði og skapað fleiri störf í þekkingariðnaði. Ég tel að með frekari einkavæðingu Landssímans muni þessi þróun halda áfram og vaxa enn frekar.