Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 16:25:46 (7158)

2001-05-02 16:25:46# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst alveg makalaust að fylgjast með málflutningi framsóknarmanna í þessu máli og þau sinnaskipti sem eru orðin þar á bæ. Nú er einkavæðing eftir hugsun sjálfstæðismanna efst á blaði.

Ég vil spyrja hv. þm. Magnús Stefánsson: Í ræðu hans kom fram að með einkavæðingunni yrði frekar fylgst með þróuninni. Þetta er þvert ofan í allt sem fram hefur komið í skýrslum og úttektum á íslenskum fjarskiptamarkaði. Ég veit ekki betur en að við séum með eitt hagstæðasta verð á þjónustunni og við erum eitt tölvuvæddasta og internetvæddasta samfélag í heimi. Í máli hv. þm. var eins og hann teldi að þróunin mundi stöðvast hjá Landssíma Íslands ef hann yrði ekki einkavæddur. Þetta er náttúrlega þvílíkt bull að það hálfa væri nóg.

Við höfum staðið okkur mjög vel og ég vil að þingmaðurinn geri grein fyrir því af hverju hann telur að einkavæðing sé nauðsynleg á þessum forsendum til að fylgjast með þróuninni og framförum. Höfum við ekki gert það af myndarskap í gegnum þetta fyrirtæki í svo mörg ár? Ekki sakar að minnast líka á verðið í þessu sambandi sem er talið eitt það hagstæðasta í heimi.