Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 16:28:15 (7160)

2001-05-02 16:28:15# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið skýrt fram hjá okkur í umræðunni og í umræðu um þessi mál hér í þinginu áður að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill ekki selja Landssímann. Við viljum halda honum sem ríkisfyrirtæki þannig að það sé alveg klárt.

En ég gat ekki betur heyrt af málflutningi þingmannsins áðan en að hann legði mjög mikla áherslu á framtíðina, þróunina, nýja tækni o.s.frv., og það var sett í samhengi við nauðsynina á því að einkavæða fyrirtækið. Þetta var mjög klárt. Við skulum fá útskrift af þessari ræðu seinna og vita hvort ég hef nokkuð misskilið það.

Þetta eru röksemdir sem færðar eru fram nánast af öllum sem tala fyrir málinu þrátt fyrir að málin standi þannig að þetta er fyrirtæki sem hefur staðið sig mjög vel, stenst allan samanburð á heimsvísu hvað gæði og hvað verð varðar. Mér kemur satt að segja á óvart að framsóknarmenn, menn sem hafa kennt sig við samvinnu, skuli á þessu sviði fara inn á einkavæðingarvagninn með sjálfstæðismönnum eins og á svo mörgum öðrum sviðum, sérstaklega í ljósi þess að þetta er fyrirtæki sem hefur gert mjög vel í gegnum árin þó að auðvitað megi alltaf gera betur eins og margoft hefur komið fram í umræðunni, svo sem eins og í þjónustu við dreifbýlið.

Svo vil ég spyrja hv. þm. hvort honum finnist eitthvað að því sem samvinnumaður að jöfnunin sé tekin í gegnum rekstur á einu af stoðkerfum samfélagsins á þennan hátt í staðinn fyrir að leggja upp með þá hugmyndafræði sem er nú uppi í Framsfl. að þeir megi éta það sem úti frýs þar sem ekki borgar sig að vera á markaði og það eigi síðan að jafna með framlögum í gegnum ríkissjóð. Þetta er alveg ný stefna hvað varðar uppbyggingu á stoðkerfum landsins. Það má þá kannski fara út í aðra hluti í framhaldi af því hvort sem við tökum heilbrigðisþjónustuna eða skólamálin o.s.frv. En í huga okkar er símaþjónustan stoðkerfisþjónusta. Þess vegna viljum við ekki einkavæða hana og viljum að ríkið standi í þeim rekstri og viljum stunda jöfnuð á þjónustunni í gegnum það fyrirtæki.