Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 16:58:54 (7173)

2001-05-02 16:58:54# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[16:58]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er enginn spámaður og hef ekki gefið mig út fyrir það að spá fyrir um hvernig markaðurinn muni þróast. Fyrst hv. þm. spyr mig, þá get ég séð það sem er að gerast í dag. Það eru töluvert öflugir aðilar að setja hér upp símafyrirtæki og þá sérstaklega á GSM-markaðnum og þau hafa náð miklum árangri á því sviði.

Eins og ég sagði áðan sé ég ekki fyrir mér að annað fyrirtæki komi í þeirri stærðargráðu sem Síminn er. Það er nánast útilokað. Og að eiga eitt slíkt fyrirtæki í okkar litla landi eru náttúrlega ákveðin forréttindi, að eiga svona öflugt fyrirtæki sem getur gefið sig út um allan heim í samkeppni og í samstarfi. Ég lít svo á að við eigum að nýta okkur þann möguleika. Þess vegna fyndist mér það grátlegt ef menn lentu í þeirri stöðu að fara að kljúfa þetta fyrirtæki upp í einhverjar einingar þannig að það væri einskis nýtt.