Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:02:52 (7176)

2001-05-02 17:02:52# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Í þeirri umræðu sem fer hér fram um frv. um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands má segja að í stórum dráttum sé aðallega tekist á um tvennt, í fyrsta lagi um þá stefnu ríkisstjórnarinnar að selja Landssímann, það hvort eigi að selja Landssímann eða halda honum áfram í eigu ríkisins, og í öðru lagi um það hvað eigi að selja, hvort eigi að selja Landssímann allan eða undanskilja grunnnetið en auk þess hefur stjórnarandstaðan gagnrýnt mjög í þessum sal hvað þetta mál ber brátt að.

Vegna þess síðastnefnda sem nokkrir hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa gert að umtalsefni að málið beri brátt að, þá finnst mér ástæða til að vekja athygli á þeim langa aðdraganda sem er að framlagningu þessa frv. og ætla ég þó ekki lengra en um tvö ár aftur í tímann. En þá þegar í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 1999 segir að halda beri áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila. Þar fellur Landssíminn sannarlega og óumdeilt undir. Ég held að okkur greini ekki á um það.

Í stefnuyfirlýsingunni segir jafnframt að hafinn skuli undirbúningur á sölu fyrirtækisins og við hana skuli þess gætt að tryggja góða þjónustu við byggðir landsins á sem hagstæðustu verði og virka samkeppni á fjarskiptamarkaði. Þetta er það sem stefnt er að sem markmiðum við sölu Landssímans. En í stefnuyfirlýsingunni frá því í maí 1999 kveður líka á um að tekjunum skuli varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs til að fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið. Það hefur legið fyrir í tvö ár að selja Landssímann, hver markmiðin með sölunni séu og hvernig andvirði Landssímans skuli varið.

Skýrsla einkavæðingarnefndar, bæði ítarleg og vel unnin, kom út fyrir rúmum tveimur mánuðum með tillögum um hvernig staðið skuli að sölunni ásamt greinargerð um stöðu Landssímans á fjarskiptamarkaði, um hina víðtæku og fjölbreyttu þjónustu sem Landssíminn veitir og greinargerð um lagalegt umhverfi á fjarskiptamarkaði og loks voru þar reifuð sjónarmið varðandi skiptingu fyrirtækisins. Þessa ágætu og ítarlegu skýrslu einkavæðingarnefndar hafa þingmenn þó haft heila tvo mánuði til að kynna sér. En þessi skýrsla er einmitt uppistaðan í athugasemdunum með frv. sem menn hafa keppst við að gagnrýna hversu seint er fram komið.

Frv. sjálft felur fyrst og fremst í sér heimild til handa ríkisstjórninni til að selja Landssímann auk ákvæðis sem kveður á um skuldbindingu Landssímans við sölu fyrirtækisins og með þessu ákvæði er lögð sérstök áhersla á þær skyldur sem hvíla á fyrirtækinu, sem hvíla á Landssímanum til að veita landinu öllu þjónustu, til að veita þjónustu um allt land.

Ég ætla að víkja aðeins að því hvernig gengið hefur verið frá því að tryggja sambærilega þjónustu um land allt, jafnan aðgang allra landsmanna og jafnt verð og hvernig það verður gert án þess að undanskilja grunnnetið við sölu Landssímans. En meginspurningin er kannski sú hvers vegna eigi að vera að selja fyrirtækið. Svar mitt er einfaldlega að það sé nauðsynlegt vegna breyttra og nýrra forsendna á fjarskiptamarkaði með því breytta rekstrarumhverfi sem nýju fjarskiptalögin lögðu grunninn að og, gleymum því ekki, byggði m.a. á tilskipun EES. Með því var komið á samkeppni á fjarskiptamarkaði fyrst og fremst í þágu neytenda en samanburður á verði á fjarskiptaþjónustu hér og t.d. í hinum OECD-ríkjunum sýnir að við hér á Íslandi höfum lengi búið við mjög lágt verð á fjarskiptaþjónustu. Með tilkomu samkeppninnar á þessum markaði hafa viðskiptasjónarmið ráðið verðlagningu á fjarskiptaþjónustu og þróunin hér eins og víða annars staðar hefur orðið sú að verð hérlendis hefur enn lækkað. Samkeppnin hefur orðið til þess að þrýsta verðinu niður jafnt í símtölum í almenna talsímakerfinu innan lands í símtölum til útlanda og líka verði á GSM-þjónustunni og verð á gagnaflutningsþjónustu hefur líka lækkað. Það eru þar með veigamestu rökin fyrir því að selja Landssímann að ríkið hefur ekki lengur því hlutverki að gegna í fjarskiptaþjónustu sem það hafði og því ber þá að draga sig út úr þeirri þjónustu, vissulega að fullnægðri þeirri skyldu sinni að tryggja að landsmenn njóti jafnræðis, bæði jafnræðis í aðgangi að fjarskiptakerfinu og jafnræðis um verð. En andvirði fyrirtækisins tel ég eðlilegt að nýtist ríkinu til að sinna þeim verkefnum og skyldum sem áfram er nauðsynlegt að ríkisvaldið standi að og þar sem ríkið hefur áfram skyldum og hlutverki að gegna.

Þetta eru veigamestu rökin fyrir því að selja Landssímann að ógleymdu því nauðsynlega aðhaldi sem dreifð eignaraðild er líklegri til að stuðla að fyrir hagkvæmar og nýjar tæknilausnir. Loks ber að hafa í huga að nýju fyrirtækin á fjarskiptamarkaði sem gera jafnt og þétt auknar kröfur til Landssímans um aðlögunarhæfni og þjónustu gera þessa kröfu líka. Á milli þessara aðila má ætla að það sé fyrst og fremst þjóðhagslega hagkvæmt og komi notendum best að það ríki fullt traust.

Herra forseti. Landssíminn, markaðsráðandi aðili á fjarskiptamarkaði, sá sem á og rekur stærstan hluta grunnnetsins, ber þá ótvíræðu skyldu samkvæmt fjarskiptalögum að veita samkeppnisaðilum, að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang m.a. að grunnnetinu, að veita þeim aðgang á sama verði og Landssíminn sjálfur greiðir fyrir aðganginn að þeim hluta rekstrarins. Bókhald og reikningskerfi Landssímans gerir kleift að skilja að einstaka kostnaðarþætti þannig að verðlagning þeirra byggi á raunkostnaði og á Landssímanum hvíli sú ótvíræða lögboðna skylda að selja samkeppnisaðilum þjónustu á sama verði og hún er seld á milli rekstrareininga í fyrirtækinu sjálfu. Það er einmitt vegna þessa þar sem ekki er nauðsynlegt að skipta upp fyrirtækinu til að tryggja öðrum fjarskiptafyrirtækjum, samkeppnisaðilunum, aðgang að grunnnetinu á sama verði. Þessu sjónarmiði eru m.a. samtök hugbúnaðarfyrirtækja sammála. Þau voru fyrir tveimur árum andvíg því að Landssíminn yrði seldur í heilu lagi en í dag eru þau ekki mótfallinn og segja að það skipti engu máli og þau benda á að þær forsendur sem þau settu fram fyrir afstöðu sinni 1998 eigi ekki lengur við. Hitt tel ég þó líka að sé allrar athygli vert tengt umræðunni um aðskilnað grunnnetsins frá öðrum rekstri Landssímans, og sýnir okkur kannski glöggvast hvað tækninni fleygir fram á fjarskiptasviðinu, að uppbygging ljósleiðaraneta utan höfuðborgarsvæðisins virðist, ef ætla má, vera mun hagkvæmari kostur en talið var til skamms tíma. Þannig hefur bæði verið lagður ljósleiðari um Suðurland og til Vestmannaeyja og Landsvirkjun eða réttara sagt fyrirtæki í eigu Landsvirkjunar er með áform um lagningu ljósleiðara tengt dreifikerfi sínu um land allt. Vegna þessa er fyrirsjáanlegt að þrátt fyrir aðganginn að grunnneti Landssímans munu önnur fyrirtæki líka á þessu sviði hvað grunnnetið varðar veita fyrirtækinu samkeppni.

Því er gjarnan haldið fram í umræðunni að hagsmunir landsbyggðarinnar verði ekki tryggðir við sölu Landssímans og að þeir hagsmunir verði bornir fyrir borð ef grunnnetinu verði ekki haldið eftir. Statt og stöðugt er látið í það skína og sagt berum orðum að með því að selja grunnnetið með séu stjórnarflokkarnir ekki að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar við þessa sölu. Ég held því fram að það sé einfaldlega rangt. Það sem samkeppnina skortir skiptir í sjálfu sér litlu máli fyrir hagsmuni notenda, hvort fjarskiptaþjónusta er veitt af fyrirtæki í ríkiseign eða hvort hún er veitt af fyrirtæki í einkarekstri. Grunnnet í fjarskiptaþjónustu í ríkiseign tryggir í sjálfu sér ekki jafnræði gagnvart fjarskiptaþjónustu og til að tryggja þau markmið að landsmenn búi við jafnan aðgang og jafnt verð er heldur engin þörf á því að halda grunnnetinu eftir vegna þess að til þess eru aðrar leiðri bæði betri og færari.

Það sem ég tel að skipti máli við að tryggja þetta jafnræði er fyrst og fremst pólitísk stefnumótun og lögfesting reglna til að tryggja hagsmuni notenda fjarskiptaþjónustu þar sem samkeppnina skortir og virkt eftirlit. Að hluta til hafa slík úrræði verið nýtt og það er unnið að slíku og önnur úrræði eru jafnframt fyrir hendi. Staðan á fjarskiptamarkaði á Íslandi í dag er sú að um land allt er sama verðið á hefðbundnum talsíma. Það er sama verð á ISDN-þjónustu, það er sama verð á ADSL-þjónustu, á ATM-þjónustu og svo NMT- og GSM-farsímakerfinu. Verð á leigulínum, sem var til skamms tíma mun hærra úti á landi og byggir þó á vegalengd og afkastagetu, hefur líka stórlækkað á síðustu missirum. En með fjarskiptalögunum frá 1999 voru lögfest ákvæði sem tryggja fjarskiptaþjónustu fyrir alla landsmenn og þar kveðið bæði á um alþjónustu og sértæka fjarskiptaþjónustu sem hafi það markmið að tryggja sanngjörn kjör á fjarskiptaþjónustu þar sem viðskiptasjónarmið eru ekki líkleg til að ráða ferðinni og ráða verðinu á þjónustunni.

En annað sem hefur þegar verið hafist handa við til að auka enn jafnræði í verðlagningu og útbreiðslu á gagnaflutningsþjónustu er auk nýrrar gjaldskrár Landssímans sem tók gildi í septembermánuði sl. nýtt átak um uppbyggingu dreifikerfisins. Sú framkvæmd byggir á stefnumótun og ósk hæstv. samgrh. og ákvörðun stjórnar Landssímans frá því í september 2000 sem fyrirtækið er samkvæmt samkomulagi við hæstv. ráðherra skuldbundið til að efna. Í öllum áætlunum fyrirtækisins er gert ráð fyrir þessu samkomulagi og efndum samkvæmt því og þessar áætlanir liggja auk annars til grundvallar við mat á verðmæti þess. En þær skuldbindingar sem þetta samkomulag gerir ráð fyrir ganga mun lengra og leggja víðtækari og dýrari kvaðir á Landssímann en þær skyldur sem fyrirtækinu eru lagðar samkvæmt fjarskiptalögum og samkvæmt leyfisbréfi fyrirtækisins. Samkvæmt þessu samkomulagi er Landssíminn m.a. skuldbundinn til innan fimm ára að tryggja viðskiptavinum á öllum þéttbýlisstöðum með fleiri en 150 íbúa aðgang að tveggja megabita samböndum yfir ATM-netið eða sambærilega þjónustu á verði sem sé það sama innan hvers svæðis en aukakostnaður við tengingar út fyrir svæðið eru þeir skuldbundnir til að verði ekki meiri en 17 þúsund kr. á mánuði. En þessi kostnaður ATM-kerfisins er á leigulínum sem keyptar eru af grunnnetinu. Landssíminn er líka samkvæmt þessu samkomulagi skuldbundinn til að bjóða háhraðagagnaflutningsþjónustu fyrir fyrirtæki og einstaklinga, svokallaða ADSL-tengingu á öllum stærri þéttbýlisstöðum, og munu 75--80% landsmanna eiga kost á þeirri þjónustu innan tveggja ára.

Að þessu fengnu og efndum samkvæmt þessu samkomulagi stendur sú spurning að mínu mati út af borðinu hvað þurfi að gera frekar en þetta til að tryggja landsmönnum öllum jafnan aðgang og verð fyrir fjarskiptaþjónustu. Það er einmitt það sem bókun þingflokks framsóknarmanna gengur út á og samkomulag stjórnarflokkanna að tryggja enn frekar uppbyggingu dreifikerfisins svo að allir landsmenn eigi aðgang að sem sambærilegastri þjónustu fyrir sama verð. Það sem vantar enn upp á jafnræðið væri þá að upphefja þessar 17 þúsund kr. eða muninn sem er á því að tengjast innan svæðis og á milli svæða og jafnvel að setja markið svo hátt gagnvart ADSL-þjónustunni að hún nái til meira en 75--80% landsmanna. Það mun víst vera mjög erfitt að leggja mat á það hvað þetta gæti kostað og byggir vissulega bæði á kröfum sem gerðar verða bæði til útbreiðslu og gæða en menn hafa giskað á að árlega gæti þessi uppbygging kostað eitthvað í kringum 200 eða 250 millj.

Herra forseti. Að lokum þetta. Til þess að fylgja eftir leikreglum sem fjarskiptalögin setja og ætlað er að tryggja samkeppnina á fjarskiptamarkaði, þá verður jafnframt --- og það er annað sem bókun þingflokks Framsfl. gengur út á --- að efla eftirlitsstofnanir ríkisins, bæði Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun og fyrir því er ráð gert.