Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:19:30 (7178)

2001-05-02 17:19:30# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:19]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Það hlýtur að vekja athygli að hver stjórnarandstöðuþingmaðurinn á fætur öðrum virðist í þessu máli, um sölu hlutafjár í Landssíma Íslands, hafa mestar áhyggjur af því að það hafi verið erfitt framsóknarmönnum að fjalla um þetta mál. Ég vil bara taka af allan vafa með að það er full samstaða innan Framsfl. í þessu máli. Ákveðnir þingmenn tóku um lengri eða skemmri tíma, kannski án þess að þekkja tæknina, þá afstöðu að hagsmunum landsbyggðar væri betur borgið með því að halda ljósleiðaranum eftir, eins og margir taka nú til orða. En meðan samtök hugbúnaðarfyrirtækja og tæknimenn skipta um skoðun á tveimur árum þá er ekki skrýtið að ótæknimenntaðir framsóknarmenn sjái líka ljósið í þeim efnum.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fjallar hér um bókun þingflokks Framsfl. sem fylgdi samþykki þingflokksins á frv. því sem hér er til umræðu. Ég held að þessi bókun skýri sig að mestu leyti sjálf. Hún bíður nánari útfærslu stjórnarflokkanna, þ.e. fyrirvari um að ákveðin atriði verði nánar útfærð.

Varðandi það sem hv. þm. spurði sérstaklega um, hvað fælist í því að efla og styrkja eftirlitsstofnanir, þá hlýtur að felast í því annars vegar að leggja meira fjármagn til þessara stofnana til að gera þeim kleift að sinna því víðtækara eftirliti sem þær hljóta að þurfa að inna af hendi með þeim frekari kvöðum sem á þær verða lagðar með þeirri breytingu sem felst í sölu Landssímans.