Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:21:23 (7179)

2001-05-02 17:21:23# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:21]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk alls ekki fullnægjandi svör við því sem ég spurði um. Í fyrsta lagi spurði ég einfaldlega um hvort samkomulag væri á milli flokkanna um að tekið yrði á þessum fjórum þáttum sem hér eru nefndir. Eða er þetta bara einhliða bókun framsóknarmanna?

Í annan stað skýrir bókunin sig ekki sjálf. Í henni segir ekkert um hversu mikið fjármagn eigi að leggja í þetta, hvorki að því er varðar 1. tölul. í bókuninni sem ég vænti að hv. þm. þekki, um framkvæmdirnar, né hve mikið fjármagn eigi að setja í eftirlitsstofnanir. Ekki er síður mikilvægt að fá svar við því hvaða samkomulag hér er verið að tala um varðandi söluandvirðið. Ég bið um skýrari svör við þeim spurningum ef hv. þm. hefur þau á takteinum.