Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:33:35 (7186)

2001-05-02 17:33:35# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Í örfáum orðum vil ég ekki leggja að jöfnu sjúkrahúsrekstur, elliheimili og menntakerfi við fjarskiptaþjónustu og sé ekki nokkur rök til og minni á að fjarskiptaþjónustan hefur þá sérstöðu gagnvart öðru sem hann nefndi og flokkar til stoðkerfis eða velferðarþjónustu að það skilar okkur verulegum hagnaði en á ekki stærsta hlutann í útgjöldum ríkisins eins og er t.d. með heilsugæsluna.

Mig langar að minna hv. þm. á að þrátt fyrir ríkiseignina, sem við höfum búið við á síðustu árum á þessu stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins, þá hefur landsbyggðin ekki búið við sömu kjör og fólk á höfuðborgarsvæðinu þótt unnið hafi verið að því hörðum höndum af hálfu Landssímans og ríkisstjórnarinnar að bæta þar um. Ég sé fyrir mér og það kemur fram í þessari bókun Framsfl. að með ráðstöfunum sem gerðar verða samfara þessari sölu verði brugðist við því að jafnt og þétt verði hægt að byggja upp þetta fjarskiptakerfi og taka á þeim nýjungum sem tæknin ber á borð á hverjum tíma.