Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:55:47 (7189)

2001-05-02 17:55:47# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:55]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna orða hv. þm. Magnúsar Stefánssonar. Hann biður mig um að skilgreina grunnnetið, hvað við eigum við. Ég er búinn að heyra þetta einu sinni áður hjá honum. Ég geri mér ekki almennilega grein fyrir því hvort einhver vafi sé á því hvað grunnnetið er. Er ekki ljóst að grunnnetið eru jarðsímalagnirnar, sama hvort þær eru ljósleiðari eða gamlar löngu afskrifaðar koparlínur? Eru það ekki jarðstöðvarnar sem eru vítt og breitt um landið, sama hvort þær tilheyra gervihnattadiskum eða örbylgjusendum? Það eru sæstrengir sem liggja yfir suma firði á Íslandi í staðinn fyrir að fara fyrir þá. Það eru tengigrindur sem eru í því sem við kölluðum í gamla daga símstöðvum. Það eru ekki símstöðvar sem slíkar heldur tengigrindur þar sem þetta kemur inn og það er ljósleiðarafjölsími, endabúnaður.

Ég held, herra forseti, að það sé ekkert erfitt að skilgreina þennan búnað. Hann er skilgreindur eins og hv. þm. veit, stjórnarmaður í Landssímanum. Hann er skilgreindur í bókhaldinu og hann er skilgreindur í samningnum um ljósleiðarapörin hjá NATO og þess vegna hljótum við að geta þetta líka. En í stuttu máli, herra forseti, þetta er grunnnetið.

Herra forseti. Rétt að lokum, það var ekki ég sem sagði það fyrst að Framsfl. hefði gleymt landsbyggðinni. Ég tók það skýrt fram og það ber að virða að það var hæstv. félmrh. í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Páll Pétursson, sem sagði í útvarpsviðtali að Framsfl. hefði gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu sinni á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hæstv. félmrh.