Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 18:01:39 (7192)

2001-05-02 18:01:39# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[18:01]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og aðrir stjórnarandstæðingar sem hér hafa talað vil ég byrja á að gagnrýna þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í þessu máli. Hér er tekið á dagskrá eitt af stærstu málum þessa þings, þegar fimm eða sex þingfundardagar eru eftir á starfsáætlun þingsins og er ekki annað að heyra á stjórnarliðum en að til þess sé ætlast að frv. fái afgreiðslu á þinginu.

Herra forseti. Það er yfirgengilegt að þetta skuli eiga sér stað, að framkvæmdarvaldið vaði yfir löggjafarsamkunduna á skítugum skónum hvað eftir annað og ætlist til að stór mál séu keyrð hér í gegn á skömmum tíma. Við hljótum að ætlast til að forsn. taki þessi vinnubrögð til umfjöllunar á fundum sínum. Þetta gengur ekki, ekki síst þegar við bætist að ekkert sérstakt hefur komið fram í umræðunni sem rök fyrir að flýta afgreiðslu frv.

Hv. 7. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, nefndi meira að segja í framsöguræðu sinni að formaður einkavæðingarnefndar hefði haft orð á því að það væri ekkert sem kallaði sérstaklega á að afgreiða málið nú og það gæti þess vegna beðið til haustsins.

Hlutabréfamarkaðurinn er í þeirri stöðu núna að það er vart hægt að ætlast til að hér fari fram sala á þessu fyrirtæki sem skili því að ríkið og almenningur fái hámarksverð fyrir þessa miklu eign sína og maður veltir fyrir sér af hverju þurfi að pressa málið í gegnum þingið nú.

Afstaða Framsfl. í þessu máli hefur vissulega vakið athygli í þessari umræðu og reyndar áður í aðdraganda þess að málið var lagt fram hér á þingi. Það er ljóst að framsóknarmenn, a.m.k. margir hverjir, hafa verið mjög tregir til að fallast á þá leið sem hér er lögð til. Það er greinilegt að enn eina ferðina hafa sjálfstæðismenn náð sínu fram gegn vilja framsóknarmanna. Það sést gleggst á þeirri bókun sem hér hefur aðeins verið farið yfir að þetta mál hefur verið erfitt mörgum framsóknarmanninum. Ég ætla að víkja nánar að þessari bókun síðar.

Ég held það sé alveg ljóst, miðað við umræðuna sem hér hefur farið fram, að það er þrenns konar afstaða uppi að því er þetta mál varðar. Stjórnarflokkarnir styðja, eins og frv. ber með sér, að heimilt verði að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands. Vinstri grænir virðast alfarið á móti því að selja nokkuð í Landssíma Íslands og Samfylkingin hefur markað þá stefnu að heimila sölu á Landssímanum en undanskilja grunnnetið. Þetta liggur alveg skýrt fyrir.

Ég vil aðeins koma inn á þau skilyrði sem framsóknarmenn hafa sett fyrir sölunni. Þeir hafa fullyrt að samstaða sé um það milli stjórnarflokkanna að þessi skilyrði nái fram að ganga. Ég vil spyrja hæstv. samgrh. um þessi skilyrði vegna þess að þau eru afar mikilvæg. Þau kosta töluverða peninga og sum eru allsérkennileg.

Í þessari bókun stendur í fyrsta lagi, með leyfi forseta:

,,Stjórnarflokkarnir móti sameiginlega framtíðarstefnu um uppbyggingu fjarskiptakerfisins um allt land þannig að landsmenn eigi aðgang að sem sambærilegastri þjónustu fyrir sama verð. Tryggt verði fjármagn til nauðsynlegra framkvæmda í þessu skyni.``

Ég spyr: Hvað er verið að tala um nákvæmlega? Veit hæstv. samgrh. það? Getur hann skýrt það betur en hér hefur komið fram og hvað kostar þessi fyrsti töluliður?

Í öðrum tölulið segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnarflokkarnir gangi frá samkomulagi um áfangaskiptingu sölunnar, sérstaklega með tilliti til þess hvenær meiri hluti fyrirtækisins skuli seldur.``

Ég vil spyrja samgrh.: Er þessi bókun gerð eftir að þessi áfangaskipting kemur fram, eins og fram kemur í frv., t.d. á bls. 14 þar sem lýst er þessum þremur áföngum? Er það samkomulagið sem stjórnarflokkarnir eru sammála um eða á eftir að semja um einhverja allt aðra áfanga? Ég vil spyrja að því er varðar þennan annan lið: Getur verið að við fjöllum um málið út frá áföngum sem eru í settir fram í frv. en þeir séu þegar upp verður staðið eitthvað allt annað sem stjórnarflokkarnir ná samkomulagi um?

Í þriðja lagi stendur í bókun þingflokks framsóknarmanna:

,,Stjórnarflokkarnir gera með sér samkomulag um ráðstöfun söluandvirðis ríkisfyrirtækja.``

Það hefur verið vitnað til stefnu ríkisstjórnarinnar að því er varðar, að mér skilst, ráðstöfun á tekjum af sölu á ríkisfyrirtækjum sem eru að greiða niður skuldir ríkissjóðs, fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum eða efla upplýsingasamfélagið. Er það þetta þrennt sem um er rætt í þessum lið bókunarinnar eða er það eitthvað annað? Er það svo, herra forseti, að hluta af þeim tekjum sem fást af þessari sölu eigi að verja t.d. til sérstakra verkefna í samgöngumálum? Það eru ekki margar vikur síðan við fjölluðum um niðurskurð eða frestun á vegaframkvæmdum í tengslum við fjárlög. Má vænta þess, herra forseti, miðað við það sem hér er sett fram um ráðstöfun á þessum tekjum, að einhverjum hluta af andvirðinu verði varið til þess að draga til baka þá frestun sem samgrh. mælti fyrir við fjárlagaafgreiðsluna?

Ég tel afar mikilvægt að þingheimur fái skýrari upplýsingar um hvernig eigi að verja andvirðinu af þessari sölu. Málið er nefnilega, herra forseti, að þegar Alþingi hefur afgreitt frá sér þessa heimild þá er málið úr höndum Alþingis, ef ég skil það rétt. Frv. gerir ráð fyrir að heimilt verði að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands án þess að nokkrir fyrirvarar séu settir fram. Út af fyrir sig veltir maður því fyrir sér hvort eðlilegt sé að Alþingi afsali sér með þessum hætti öllum afskiptum af þessu máli og hvort eðlilegra hefði verið að áfangaskipta heimild Alþingis til samgrh. að því er þessa sölu varðar.

Í fjórða lið bókunarinnar, svo ég ljúki henni af, herra forseti, þá segir:

,,Eftirlitsstofnanir ríkissins á þeim sviðum sem hér um ræðir verði styrktar.``

Framsóknarmenn hafa sérstaklega talað um Samkeppnisstofnun í því samhengi, herra forseti, að þar þurfi að bæta við, ef ég skil þá rétt. Þeir eru ekki að tala um lagabreytingu heldur um að fjölga þurfi sérfræðingum á fjarskiptasviði hjá Samkeppnisstofnun.

Ég vil spyrja hæstv. samgrh.: Verður það gert? Hefur verið fallist á það af hálfu sjálfstæðismanna að efla Samkeppnisstofnun og fjölga sérfræðingum vegna málsins sem við ræðum hér?

Mér finnst það afar mikilvægt við 1. umr., sérstaklega þar sem þinginu er ætlaður svo knappur tími til að afgreiða málið, að fá fram skýrari línur að því er þessa þætti varðar. En þessi fjögur skilyrði sem framsóknarmenn hafa greinilega sett fyrir afstöðu sinni til frv. sýna okkur ljóslega hvað málið hefur verið þeim erfitt.

Eins og ég nefndi áðan er stefna Samfylkingarinnar skýr, þ.e. að selja fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Við höfum dregið línuna hér að því er varðar grunnnetið og við drögum línuna líka skýrt við velferðarkerfið. Það kemur ekki til greina að einkavæða í heilbrigðis-, mennta- og félagslega kerfinu, svo það sé skýrt. Við viljum að þar eigi allir að hafa aðgang óháð efnahag.

Nú vil ég spyrja hæstv. samgrh., af því að hér hefur það t.d. komið fram hjá samgrh. að Landssíminn hafi núna 85% af markaðshlutdeildinni: Með því fyrirkomulagi sem hér er verið að leggja til, að selja allt eins og það leggur sig og undanskilja ekki grunnnetið, er þá ekki raunverulega verið að viðhalda markaðsráðandi stöðu Landssímans? Getur hæstv. samgrh. fullyrt að með þeirri leið sem hann mælir fyrir sé markaðsráðandi stöðu Landssímans ekki viðhaldið?

Í því sambandi vil ég spyrja: Hefur hæstv. ráðherra leitað, t.d. til Samkeppnisstofnunar, eftir áliti á því? Væri ekki eðlilegt að Samkeppnisstofnun segði álit sitt á sölunni áður en Alþingi gefur framkvæmdarvaldinu svo stóra heimild, að selja Símann eins og hann leggur sig? Ég held að það væri ákaflega mikilvægt að fá það fram við umræðuna hvort það hafi verið gert og ef ekki, hvort ráðherrann telji þá ekki eðlilegt að leita til Samkeppnisstofnunar áður en málið fer frá þinginu.

Verðið á þessu fyrirtæki hefur verið til umræðu. Ef ég skildi ráðherrann rétt --- hann mælti fyrir frv. í allskýru máli --- þá hélt hann því fram að salan mundi fara fram þegar eðlilegar aðstæður væru á markaðnum til sölunnar. Ef málinu er þannig háttað, er þá ekki nokkuð ljóst, herra forseti, og ég spyr samgrh. að því, að gera megi ráð fyrir að ekkert verði selt á þessu ári? Er ekki staðan á hlutabréfamarkaðnum og í efnahagslífinu með þeim hætti að ekki sé skynsamlegt að ráðast í sölu, sérstaklega ef ná á því markmiði ríkisstjórnarinnar að fá hámarksverð fyrir þessa ríkiseign?

Hlutabréf á markaði hafa verið að lækka um tugi prósentna á umliðnum missirum og gengi þeirra er örugglega í sögulegu lágmarki. Það er ekkert sérstakt sem bendir til að hlutabréfamarkaðurinn sé á uppleið. Gengið hefur fallið með þvílíkum ósköpum, við erum sennilega að tala um yfir 20% frá næstsíðustu áramótum. Einungis á þessum degi um einhver 6%, þannig að það væru þá helst erlendir fjárfestar sem græddu á að kaupa hlut í fyrirtækinu. Það er líka ansi erfitt, herra forseti, að fara út í að veita þessa heimild áður en nokkuð liggur fyrir um verðmat á þessu fyrirtæki. Hæstv. ráðherra kom inn á það í máli sínu að ekkert lægi fyrir um það. Þar sem ráðgjafarfyrirtæki er að meta þessa eign almennings þá spyr ég hæstv. ráðherra: Mun verðmat liggja fyrir áður en málið verður afgreitt frá þinginu eða hvenær er þess að vænta að það geti legið fyrir?

[18:15]

Í dag hefur verið rætt um að verulegt verðfall hafi orðið á þessari eign. Menn tala um að það séu kannski rúmlega 20 milljarðar núna sem megi vænta miðað við stöðuna á hlutafjármarkaði að hægt sé að fá fyrir þessa eign en menn voru að tala um 40--60 milljarða og allt upp í 80 milljarða ef ég man rétt fyrir einu og hálfu ári.

Ég er með upplýsingar frá Verðbréfaþingi þar sem Verðbréfaþing var spurt um það hvað megi áætla að komi fram af nýju hlutafé á árinu 2001 og 2002. Við erum ekki bara að tala þar um Landssímann, við erum líka að tala um sölu á bönkunum. Þar kemur fram að vegna Landssímans áætlar Verðbréfaþing að 7 milljarðar komi inn á þessu ári og þeir reikna með svipaðri fjárhæð á þessu ári: ,,... svipuð fjárhæð fer til erlendra fjárfesta á árinu ...`` Ef það gengur eftir sem þeir eru að tala um þá eru þeir að tala um 14 milljarða á þessu ári. Síðan nefna þeir árið 2002 og segja að varðandi Landssímann megi ætla að nýtt hlutafjárútboð komi upp á 10 milljarða. Samtals er því hér verið að tala um einhverja 24 milljarða og þar af 14 milljarða á þessu ári.

Ég spyr hæstv. samgrh.: Kannast hæstv. samgrh. við þær tölur sem ég nefndi? Kannast hæstv. fjmrh. við þær? Sér hann nokkuð fyrir sér sem bendir til þess að það sé raunhæft, ef menn ætla að fá eðlilegt verð fyrir Landssímann, að hægt sé að selja þá á þessu ári samhliða því að bankarnir eiga líka að fara í sölu?

Er það ekki bara svo, herra forseti, að það liggi svona mikið á að selja af því stjórnarflokkarnir, og þá einkum Sjálfstfl., eru að fara í sína hefðbundnu einkavinavæðingu? Að einhverjir vildarvinir bíði eftir því að geta farið að kaupa Landssímann? Og að áföngunum sé skipt miðað við það sem fyrrverandi viðskrh. orðaði þegar hann var óbreyttur þingmaður árið 1993 þegar var verið að ræða um sölu á bönkunum, að verið væri að brytja þá niður í passlega stóra bita, þannig að þeir pössuðu í ginið á Kolkrabbanum? Er það ekki það sem hæstv. ráðherra er að gera varðandi þá áfangaskiptingu sem hér er sett fram?

Herra forseti. Ég held að afar mikilvægt sé að fá svör við þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra og ekki síst varðandi matið á fyrirtækinu.

Ég spyr líka hæstv. samgrh.: Telur hann ekki eðlilegt að áður en fram fari sala á Landsbankanum að samþykki Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar liggi fyrir á því að rétt sé og eðlilegt að fara með bankann í sölu miðað við það að sú staða sé þó uppi á markaðnum að fyrir hann fáist eðlilegt verð? Væri það ekki réttur farvegur í málinu?

Af því ég sé að fyrri ræðutíma mínum er að ljúka þá vil ég í lokin spyrja um starfsmennina. Hefur verið haft samráð við starfsmennina um þessa sölu? Verður einhver breyting á þeirra högum við söluna? Telur ráðherra að hægt sé að halda þannig á sölunni að starfsmannavelta muni ráða, en ekki verði farið út í hagræðingu sem muni t.d. bitna á starfsmönnum, að þeim verði sagt upp? Er hæstv. ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir að þannig verði haldið á sölunni að það verði sett sem eitt af skilyrðunum?

Ég spyr hæstv. ráðherra líka: Telur ráðherrann ekki rétt og eðlilegt að starfsmenn hafi fulltrúa í stjórn fyrirtækisins? Er það þannig nú? Ég spyr um það. Ég minnist þess ekki að svo sé. Ég held að það séu aðallega alþingismenn þarna í stjórn og tveir þeirra hafa talað á þessum degi. Ég verð að segja það, herra forseti, að manni finnst hálfankannalegt að alþingismenn sitji í stjórn þessa fyrirtækis og séu svo að fjalla um sölu og sölufyrirkomulag á þessu í þingsölum.

Ég spyr, herra forseti, hér í lokin af því tíma mínum er að ljúka: Er hæstv. ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að starfsmenn fái fulltrúa í stjórn þessa fyrirtækis? Síðan ítreka ég þær nokkuð mörgu spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra og vona að hann svari þeim áður en umræðunni lýkur.