Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 18:26:07 (7195)

2001-05-02 18:26:07# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[18:26]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þm. þá get ég ekki staðfest að fyrir muni liggja verðmat á fyrirtækinu áður en frumvarpið verður afgreitt frá þinginu. Verið er að vinna í því máli og eins og ég sagði fyrr í dag er það mjög flókin og viðamikil vinna. Við erum fyrst og fremst að leita eftir þessari almennu heimild til þess að selja þennan hlut og ekki er hægt að gera þá kröfu út af fyrir sig að við getum sagt fyrir um hvert verðið verður því að hluta til verður þarna um að ræða uppboðsmarkað á hlutabréfum þannig að það er úr vöndu að ráða hvað það varðar.

Um það atriði hvernig eigi að ráðstafa söluandvirði þá er um það að segja í fyrsta lagi að það kemur skýrt fram bæði í stjórnarsáttmálanum og í greinargerðinni með frumvarpinu að við gerum ráð fyrir að ráðstafa fjármunum vegna sölu ríkiseigna til þessara þriggja þátta: Til lækkunar skulda, til sérstakra samgönguverkefna og til upplýsingasamfélagsins, verkefna vegna þess. Að öðru leyti afgreiðum við ríkisútgjöld og framlög í fjárlögum hverju sinni. Það er því algerlega útilokað að gera kröfu til þess að hér verði afgreidd fjárlög samhliða því að heimila sölu þessa fyrirtækis. Það er því ekki hægt að gefa neinar yfirlýsingar um það hvert þessir fjármunir renna. Um það tökum við ákvörðun þegar þar að kemur, þegar fjárlög verða afgreidd.