Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 18:28:20 (7196)

2001-05-02 18:28:20# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[18:28]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Enginn er að fara fram á það að hér verði afgreidd fjárlög samhliða þessu frumvarpi að því er þessa þrjá þætti varðar. En ég spyr þá um hvort það sé réttur skilningur hjá mér á orðum ráðherrans að það liggi þegar fyrir að tekjunum verði varið til þeirra þriggja þátta sem ráðherrann nefndi? Ekki einhvern einn af þeim eða tvo, heldur verði tekjunum varið til þessara þriggja þátta, þ.e. að hluta til verði þeim varið til að greiða niður skuldir, að hluta til til að fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og að hluta til til að efla upplýsingasamfélagið. Ráðherrann kinkar kolli þannig að það er þá til samþykkis um að tekjunum verði varið til þeirra þriggja þátta sem ég nefndi (Samgrh.: Að því er stefnt.) --- Að því er stefnt.

Ég spyr um það, herra forseti: Hefur verið leitað álits miðað við þá stöðu sem við erum í í efnahagsmálum um ráðstöfun á þessu andvirði með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur lýst hjá Seðlabanka og hjá Þjóðhagsstofnun? Ef svo er, hvert er þá mat Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka á því að ráðstafa andvirðinu svo skiptir kannski tugum milljarða í þá þrjá þætti sem hér hafa verið nefndir? Ég spyr um það vegna þess að Alþingi mun auðvitað leita eftir því ef það hefur ekki verið gert hjá þeim stofnunum sem fara með eða eiga að veita ráðgjöf í efnahagsmálum hvort skynsamlegt sé að verja fjármagninu miðað við þær aðstæður sem við erum í til þeirra þriggja þátta sem hæstv. ráðherra nefndi.