Utandagskrárumræða um gengisþróun

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:04:17 (7203)

2001-05-02 20:04:17# 126. lþ. 116.96 fundur 508#B utandagskrárumræða um gengisþróun# (um fundarstjórn), JB
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:04]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að fyrir tveim dögum óskaði ég eftir því að eitt fyrsta mál hér á dagskrá yrði utandagskrárumræða einmitt um efnahagsmál, verðbólgumarkmið og gengismál í ljósi þeirrar stöðu sem þá var þegar komin fram og fyrirsjáanlegt að mundi versna. Þau svör sem ég fékk frá skrifstofu Alþingis voru að útilokað væri að fá þetta mál rætt hér í dag og því væri hafnað að þetta væri tekið til umræðu í dag.

Nú hefur farið svo í dag að það er algjört met í gengissigi og flótta fjármagns úr landinu. Þetta er svo alvarlegt, herra forseti, að efnahag okkar stendur verulega ógn af. Og þetta gerist þvert ofan í yfirlýsingar sem hæstv. forsrh. hefur gefið, bæði á aðalfundi Seðlabankans nýverið og eins hér í sölum Alþingis. Því það er engin lausn að breyta um áherslur í peningastjórnun, úr gengismarkmiðum í verðbólgumarkmið ef því er síðan ekkert fylgt eftir og öllu leyft að ganga lausu.

Herra forseti. Af því að við höfum verið að ræða hér hugsanlega sölu Landssímans í dag, þar sem átti að leggja megináherslu á að selja hann úr landi, þá hefur bara það eitt, gengissigið og gengisfallið í dag rýrt hugsanlegt söluverð hans um milljónir ef ekki tugmilljónir króna, bara í dag, herra forseti. Það hefði því fyllilega verið ástæða til að hæstv. forsrh. væri hér og gerði Alþingi grein fyrir því hvað er að gerast í peningamálum þjóðarinnar, í efnahagsmálunum.

Ég óska því eftir að við munum halda áfram þingi á morgun, herra forseti, því þetta er svo alvarleg staða sem er uppi í efnahagsmálum, gengismálum og verðbólgumálum að full ástæða er til að þingfundur verði haldinn hér á morgun og þetta mál tekið fyrir og rætt og þingið fái skýringar á því til hverra aðgerða á að grípa, hver staða málsins er. Þetta er svo alvarlegt mál að við þurfum að taka öll höndum saman um að koma í veg fyrir að hér verði stórslys í efnahagsmálum.