Utandagskrárumræða um gengisþróun

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:07:42 (7205)

2001-05-02 20:07:42# 126. lþ. 116.96 fundur 508#B utandagskrárumræða um gengisþróun# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er afskaplega alvarlegt mál sem við stöndum frammi fyrir. Við erum að ljúka hér þingdögum og í hönd fer nefndavika. Við erum með þingsköp sem gera okkur ekki unnt að bregðast við með þeim hætti sem mjög mikilvægt er þegar atburðir af þeim toga sem nú er ljóst að hafa skollið yfir í dag gerast.

Það er hárrétt hjá forseta að beiðni um hálftíma utandagskrárumræðu þegar mikilvæg mál ber að þarf að bera upp við forseta áður en þingfundur hefst. Og við hljótum að þurfa að skoða það með hvaða hætti er hægt að bregðast við eftir að fundur hefst þegar stórir atburðir gerast.

Herra forseti. Ég hef ekki áhuga á að bregðast því að halda mig við fundarstjórn forseta en ég hlýt þó að nefna það að fyrir um áratug þegar var 10% gengisfelling hjá Svíum, þá urðu afleiðingarnar gífurlegar vegna þess að allir fjárfestar drógu sig út úr landinu. Hjá okkur varð yfir 10% gengissig í fyrra og nú erum við að horfa á 6% sig, hrun eða fall í dag og þá er gengisfall orðið um 15% á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

Þetta er svo alvarlegt að ég skil ekki hvernig við eigum bara að fara til fundarvinnu á morgun og láta eins og ekkert hafi í skorist hér á Alþingi vegna þess að Alþingi er líka gagnrýnt fyrir það að vera að tala um aðra hluti en þá sem mikilvægastir eru á stundum. Og það er það sem brennur á okkur núna á þessari kvöldstund, herra forseti.