Utandagskrárumræða um gengisþróun

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:09:48 (7206)

2001-05-02 20:09:48# 126. lþ. 116.96 fundur 508#B utandagskrárumræða um gengisþróun# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:09]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég er satt að segja mjög undrandi á því að hæstv. forseti skuli ekki reyna að leita að svigrúmi til að koma á þeim fundi sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur óskað eftir og fá fram þær umræður sem hann hefur kallað eftir við hæstv. forsrh. þegar uppi eru svona alvarlegir atburðir og aðstæður í þjóðfélaginu eins og við höfum orðið vitni að.

Hrunið á genginu núna á þessum degi, 6--7% og frá áramótum um 16%, er auðvitað mjög alvarlegt og getur haft mjög alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir verðbólguna og getur raunverulega haft svo hrikalegar afleiðingar að varla er hægt að sjá það fyrir.

Herra forseti. Það er atkvæðagreiðsla á eftir og ég vænti þess að hæstv. forsrh. mæti hér í hús. Ég spyr því: Er ekki hægt, herra forseti, að reyna að veita það svigrúm sem hér er verið að kalla eftir? Og ef það gengur ekki eftir, þá sé ég að í fyrramálið er svigrúm samkvæmt fundatöflu hjá nefndunum kl. 10 að hafa slíkan fund ef vilji væri til þess hjá hæstv. forseta að beita sér fyrir því. Nefndafundir byrja ekki fyrr en kl. 11 í fyrramálið, þannig að ég óska nú eindregið eftir því að hæstv. forseti kalli saman fund með formönnum þingflokka og athugi hvort ekki sé hægt að fá það svigrúm í fyrramálið til að hafa þær umræður sem verið er að kalla eftir að verði á þessum degi. Ég fer þess á leit við hæstv. forseta.