Utandagskrárumræða um gengisþróun

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:11:31 (7207)

2001-05-02 20:11:31# 126. lþ. 116.96 fundur 508#B utandagskrárumræða um gengisþróun# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel það miður að hæstv. forseti skuli ekki hafa getað fallist á það að svo alvarlegar aðstæður hafi verið að skapast í efnahagsmálum og gengismálum að ástæða væri til þess af hálfu forseta að greiða fyrir því að hér gætu orðið skoðanaskipti um þau mál.

Það hefur komið fram að hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingar -- græns framboðs í fjárlaganefnd, óskaði fyrir tveimur dögum eftir utandagskrárumræðu um einmitt þá stöðu sem þegar blasti við í þessum efnum, áframhaldandi mikið gengissig, vaxandi verðbólgu og versnandi horfur í efnahagsmálum almennt. Og síðan þá hafa hlutirnir ekkert gert annað en að versna og dagurinn í dag hlýtur að teljast sá svartasti í þessum efnum í mjög langan tíma.

Við slíkar aðstæður, herra forseti, tel ég að forseti eigi að ganga í lið með þingmönnum og þinginu og reyna að sjá til þess að þingið geti orðið vettvangur skoðanaskipta um þessi mál.

Það er nú einu sinni svo, herra forseti, sem ég veit að ég þarf ekki að rifja upp fyrir hæstv. forseta, þingreyndum manninum, að fyrir utan það að vera löggjafarsamkoma er Alþingi mikilvægasti vettvangur pólitískra skoðanaskipta í landinu. Hér eiga menn kost á því að ræðast við um þjóðmálin, stjórn og stjórnarandstaða, forustumenn stjórnmálaflokka og þingflokka og það er annað og mjög mikilvægt hlutverk löggjafarsamkomu í lýðræðisríkjum þar sem menn hafa tiltekið málfrelsi og tiltekin réttindi.

Herra forseti. Þegar slíkar aðstæður skapast eins og í dag, þá finnst mér menn eigi ekki að reyra sig fasta í einhverjar löngu settar tímatöflur eða dagskrár sem gengið hafi verið frá. Og eðlilegast hefði verið að hæstv. forseti hefði hlutast til um það að utandagskrárumræða sú sem hv. þm. Jón Bjarnason hafði beðið um kæmist á.

Hefði svo ólíklega viljað til að hæstv. forsrh. hefði viljað sýna þinginu þann sóma að gefa hér yfirlýsingu um efnahagsmál vegna þeirra alvarlegu aðstæðna sem skapast hafa, þá hefðu allir fallist á að hann hefði haft fyrsta orðið í þeirri umræðu og verið eðlilegt. En við eigum auðvitað ekki slíku að venjast heldur frekar hinu að þurfa að draga hæstv. ráðherra hér til umræðna, sem er miður. Við aðstæður af þessu tagi hefði það verið að mínu mati mjög við hæfi að forsrh. hefði gefið yfirlýsingu hér á Alþingi og gefið mönnum kost á því að ræða við sig þessa alvarlegu stöðu. Það hefðu verið viðbrögð sem hefðu verkað yfirvegað og til þess fallin frekar en hitt að efla trú manna á því að menn tækju hlutina alvarlega og væru að leita einhverra lausna.

Ég vona því að virðulegur forseti skoði þessa hluti og hugleiði þá ósk hv. þm. Jóns Bjarnasonar að leyfa þessa umræðu á morgun.