Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:22:30 (7211)

2001-05-02 20:22:30# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:22]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil í umfjöllun um frv. til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. víkja enn frekar að því skriflega leyfi sem gert er ráð fyrir að Landssíma Íslands sé veitt en þar stendur: ,,Póst- og fjarskiptastofnun veitir hér með Landssíma Íslands hf. leyfi til að reka fjarskiptaþjónustu og fjarskiptanet eins og það er nánar ákvarðað í leyfi þessu ...`` Ég vil gera þar að umtalsefni nokkur atriði.

Í 3. gr. stendur:

,,Bregðist leyfishafi skyldu sinni að fullnægja ákvæðum leyfisins eða ef ekki er framfylgt kröfum Póst- og fjarskiptastofnunar um umbætur til úrbóta getur stofnunin afturkallað leyfið að undangengnum hæfilegum viðvörunarfresti.``

Ég óska eftir að vita hjá hæstv. samgrh.: Hvernig er ætlunin að beita þessu ákvæði þegar þjónustan er í höndum þessa fyrirtækis, búið er að selja fyrirtækið, þannig að það er enginn sem kemst að því með slíkar kröfur, og hvaða þýðingu hefur þá að afturkalla leyfið? Er þá ætlunin að loka fyrir þjónustuna? Hvernig á að gera svona lagað virkt? Eða getur hæstv. samgrh. bara innkallað fyrirtækið?

Það gengur að beita slíku ákvæði á einhver minni háttar atvinnurekstrarfyrirtæki sem skipta minna máli en á heilu stóru almenningsþjónustuapparati eins og Landssíminn mundi verða, sé ég ekki hvernig þetta væri virkt.

Í 5. gr. eru raktir þættir sem leyfið nær til, talsímaþjónusta, telexþjónusta o.s.frv. og þar stendur, herra forseti:

,,Leyfishafi skal leitast við að veita þjónustu um allt land ef eftirspurn réttlætir og þjónustan er arðbær á landsvísu.``

Hvað þarf nú frekar vitnanna við? Leyfishafi skal leitast við en honum er ekkert skylt, hann skuli aðeins leitast við að veita þjónustu um allt land ef eftirspurn réttlætir og þjónustan er arðbær á landsvísu. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er arðurinn sem á að vera númer eitt og á að ráða þjónustunni.

Ég vil líka benda á 22. gr., herra forseti. Þar stendur:

,,Leyfið er ekki framseljanlegt. Þó skal leyfishafa heimilt að framselja hluta af leyfinu eða leyfið í heild til dótturfélaga sem eru að öllu leyti`` --- að öllu leyti --- ,,í eigu leyfishafa.``

Sá sem er eftirlitsaðilinn með þessu öllu er Póst- og fjarskiptastofnun, hún getur afturkallað leyfið ef leyfishafi stendur sig ekki í skilum, hún á sem sagt að sinna eftirlitshlutverkinu.

Herra forseti. Víkjum nú að öðru starfsleyfi sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur veitt. Hún hefur líka veitt Íslandspósti hf. starfsleyfi. Þó svo Íslandspóstur hf. sé reyndar algerlega í eigu ríkisins er samt starfað þar samkvæmt sérstöku leyfisbréfi og í því leyfisbréfi eru líka tilgreind réttindi og skyldur. Þar stendur, með leyfi forseta, í 12. gr. varðandi Íslandspóst:

,,Leyfishafa er óheimilt að framselja rétt sinn og skyldur samkvæmt leyfisbréfi þessu. Leyfishafa er þó heimilt að fela dótturfyrirtæki rekstur póstþjónustu að nokkru eða öllu leyti en slík ráðstöfun leysir leyfishafa að engu undan skyldu sinni samkvæmt leyfi þessu.``

Þarna er líka sagt nákvæmlega, herra forseti, að viðkomandi fyrirtæki er óheimilt að framselja þessi leyfi. En hvernig hefur Póst- og fjarskiptstofnun fylgt þessu eftir? Ítrekað hefur verið bent á það í umræðunni að þessi nýju lög, fjarskiptalög og lög um Póst- og fjarskiptastofnun, geri þetta umhverfi svo öruggt, öruggt eftirlit og örugg lög og allt svoleiðis nokkuð, þannig að þetta sé allt í góðu lagi.

Tökum dæmi eins og við stóðum frammi fyrir þegar pósturinn var að loka pósthúsum í Skagafirði. Þá sendi hópur Skagfirðinga bréf, undirskriftalista bæði til Íslandspósts, til samgrh., til Póst- og fjarskiptastofnunar, með athugasemdum um það hvort þetta uppfyllti lög og reglur. Sveitarstjórn Skagafjarðar sendi bréf, sendi kæru til Póst- og fjarskiptastofnunar um að þetta yrði athugað, yrði athugað hvort Íslandspóstur hefði leyfi til þess að framselja póstþjónustuna til annars aðila. Hvað hefur gerst? Þetta bréf var sent 14. mars sl. Ekki hefur heyrst hósti eða stuna frá Póst- og fjarskiptastofnun í þessu máli. Þannig er þetta nú virkt í dag.

Hverju megum við þá búast við gagnvart fyrirtæki sem verður algerlega búið að selja burt og engin tök er hægt að hafa á? En varðandi Íslandspóst eigum við þó fyrirtækið, þá á ríkið fyrirtækið og getur beitt það þeim kostum sem eigandi. En hæstv. samgrh. er yfirmaður bæði Íslandspósts og Póst- og fjarskiptastofnunar.

Ég vil því draga þetta fram þegar verið er að ræða um hversu gott eftirlitskerfið er að þarna er þetta nú bara svona. Þó að það sé í höndum núv. hæstv. samgrh. að fylgja eftir, Póst- og fjarskiptastofnun og Íslandspóstur hf., er samt ekki hægt að framfylgja þessu eftirliti. Þegar þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs óskaði eftir því við Íslandspóst að hann gæfi upp hvernig hann hefði samið við aðra aðila, hvort hann hefði framselt leyfið, þá var ekki hægt að svara því á grundvelli einhverra reglna sem þar voru tilgreindar. Svona er nú þetta eftirlit, herra forseti, í reynd sem við erum hér að fara út í.

Ég vildi draga þetta fram hér, herra forseti, af því að það hefur ítrekað verið dregið fram í umræðunni hvað þetta væri öruggt og gott eftirlit.

Eitt er líka eftir í þessu, herra forseti, alveg eins og í Póstinum. Það er eftir að skilgreina þjónustustigið. Það er eftir að skilgreina gæði þeirrar þjónustu sem á að bjóða, sem eiga að vera í fjarskiptaþjónustunni, og það á Póst- og fjarskiptastofnun væntanlega að gera. Þetta er allt saman eftir. Það er afar hættulegt að sleppa þessu úr hendi okkar, úr hendi ríkisins, áður en allar þessar kröfur eru skilgreindar. Í umræðunni hefur komið fram reginmunur á því hvernig litið er á þessa þjónustu. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lítum á þetta sem grunnalmannaþjónustu, ákveðin grunnþjónusta í fjarskiptum er grundvöllur fyrir almenna samkeppnishæfni fólks, einstaklinga, fyrirtækja og byggðarlaga, og á því að flokkast sem almannaþjónusta en ekki einhver afmarkaður hreinn fyrirtækjarekstur eins og sumir hafa viljað líta á. Einstök atriði, einstakir þættir í þessari starfsemi gætu svo sem verið það, en grunnfjarskiptaþjónustan er grunnalmannaþjónusta og á ekki að vera hluti af einhverjum almennum, venjulegum fyrirtækjarekstri sem lýtur þeim uppboðslögmálum. Þarna er verulegur munur á. Ég get svo sem skilið að þingmenn Sjálfstfl. og Sjálfstfl. séu þessarar skoðunar en ég hélt að félagshyggjuandinn sem var einu sinni grundvöllur Framsfl., ætti kannski einhver ítök þar enn. En því miður, herra forseti, virðist það líka verið borin von.

Af sérstöku tilefni af ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar í dag, þar sem hann talaði um nauðsyn þess að hlutafélagavæða Landssímann og selja hann, það hafi verið nauðsynlegt til þess að losa hann út úr stirðbusahætti og því hve ríkið er svifaseint sem háir ríkisfyrirtækjum þá sagði ég í andsvari að þetta væri ekki siðlegt og ekki boðlegt gagnvart því fólki sem þarna hefði unnið um árabil. Ég þekki það til að einmitt því fólki, sem vann við að byggja upp Landssíma Íslands, byggja upp fjarskiptakerfið um land allt, var meira að segja sagt í kjarasamningum, það þekki ég til og veit, að halda aftur af sér, það væri að taka þátt í að byggja upp almannaþjónustu, það væri að taka þátt í að byggja upp þjónustu um allt land. Þetta væri það sem verið væri að gera. En nú er þessu fólki sagt að það hafi verið stirðbusalegt og verið fyrirtækinu til trafala.

Ég harma svona lagað og tel að það eigi ekki að gera þetta, herra forseti.