Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:42:33 (7217)

2001-05-02 20:42:33# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:42]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að hafa komið hér upp í andsvar til þess að tækifæri gæfist einmitt til þess að draga þetta alveg skýrt fram hér af minni hálfu og fyrir það fólk sem hefur unnið gott starf hjá Landssíma Íslands og Pósti og síma á sínum tíma. Það er nokkuð víst að það fólk, hið almenna fólk sem þar vann, hefur ekki verið sérstaklega hátt launað, þannig að það í sjálfu sér hefur ekki sligað eða verið til byrði fyrir fyrirtækið, heldur hefur fólk unnið þessu fyrirtæki vel og lagt sitt af mörkum, þó svo að nú sjái það fram á miklar eignir sem renna til annarra hluta. Þetta fólk hélt og leit á sig vera að vinna að almannaþjónustu og byggja hana upp.

Það er því fyllilega ástæða til að ítreka það að einmitt þetta starfsfólk, það er því að þakka að við búum við þessa stöðu í fjarskiptum, er núna að velta fyrir sér hversu mörgum tugum milljarða virði þetta fyrirtæki er. Það hefði verið miklu nær að finna rekstrarform eða laga rekstrarform þessa fyrirtækis, ef nauðsyn krefur, að einhverjum nýjum kröfum í rekstri ríkisfyrirtækja, sem ég tel þó ekki þurfa í megindráttum. Aðalatriðið er að hafa hugarfarið, hafa trú á því sem verið er að gera og hafa trú á því að ríkinu beri skylda til að sinna almannaþjónustu og standa myndarlega að því framvegis eins og hingað til varðandi fjarskiptaþjónustu við landsmenn.