Stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Miðnesheiði og Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:07:30 (7228)

2001-05-09 10:07:30# 126. lþ. 117.1 fundur 703. mál: #A stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Miðnesheiði og Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:07]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Keflavíkurflugvöllur og Leifsstöð gegna vaxandi hlutverki í okkar daglega lífi og borgaraleg umferð um hann vex stöðugt. Starfsemi þar verður einnig flóknari og það nýjasta þar er Schengen-samningurinn með tilheyrandi stækkun og auknu eftirliti. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkurflugvallar var fyrir nokkru settur á dagskrá með atkvæðagreiðslu.

Öll starfsemi á Keflavíkurflugvelli er á svonefndum varnarsvæðum sem ætluð eru fyrir starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þó varnarliðið sé ekki með neina starfsemi á þeim hluta varnarsvæðanna þar sem borgaralegt flug og borgaraleg starfsemi er þá er öll stjórnsýsla þar í höndum utanrrh. Þetta hefur leitt til þess að starfsemi sem er tengd umsvifum við millilandaflugið og Leifsstöð, en heyrir undir aðra ráðherra, hefur verið staðsett annars staðar en við Leifsstöð. Í því sambandi má nefna starfsemi tengda Schengen-samningnum eins og SIRENE-eftirlitskerfið sem heyrir undir dómsmrh. og er staðsett hjá ríkislögreglustjóra.

Hið sama getur einnig átt við um innanlandsflugið sem heyrir undir samgrh. en heyrði undir utanrrh. ef starfsemin yrði færð inn á varnarsvæðin á Keflavíkurflugvelli.

Rekstur tveggja sýslumannsembætta nánast hlið við hlið er einnig kapítuli út af fyrir sig þar sem sýslumaðurinn í Keflavík heyrir undir dómsmrh. en sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli heyrir undir utanrrh. Hluti af rekstri sýslumannsins á Keflavíkurvelli heyrir þó undir ríkislögreglustjóra sem heyrir svo aftur undir dómsmrh. Þessi rekstur, þó flókinn sé, gengur ágætlega og er ekkert yfir þeim ágætu embættismönnum að kvarta enda þar valinn maður í hverju rúmi. Ég tel þó, herra forseti, að þetta fyrirkomulag hamli eðlilegri uppbyggingu á opinberri starfsemi á Suðurnesjum.

Sú hugmynd hefur heyrst að byggja stjórnsýsluhús utan varnarsvæðanna, t.d. efst í Reykjanesbæ næst flugvellinum sem hýsti alla þá opinberu starfsemi sem eðlileg þykir á þessu svæði. Þá skipti ekki máli undir hvaða ráðuneyti viðkomandi stjórnsýsla heyrði. Þá væri einnig mögulegt að sameina sýslumannsembættin í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli í eitt embætti.

Auðvitað verða allar aðgerðir í þessum efnum að vera í góðri sátt við varnarliðið. Á þeim bæ hefur ekki skort á samstarfsvilja ef hagsmunir Suðurnesjamanna eru annars vegar og það samrýmist varnarsamstarfi ríkjanna.

Af þessum ástæðum hef ég lagt fyrirspurn til hæstv. forsrh., sem hljóðar svo, herra forseti:

1. Telur ráðherra mögulegt að stjórnsýsla sem nú heyrir undir tvö ráðuneyti geti gert það áfram þótt starfsemin færist inn á varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli, t.d. ef innanlandsflug flyst til Keflavíkurflugvallar?

2. Telur ráðherra ástæðu til vegna Schengen-samningsins og aukinna umsvifa í Flugstöð Leifs Eiríkssonar að skoða sameiningu sýslumannsembættanna í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli?

3. Er að mati ráðherra ástæða til að viðhalda því fyrirkomulagi að öll stjórnsýsla í kringum almenna starfsemi á varnasvæðum á Miðnesheiði heyri undir utanríkisráðuneytið þótt hún tengist ekki beint varnarliðinu?