Stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Miðnesheiði og Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:10:27 (7229)

2001-05-09 10:10:27# 126. lþ. 117.1 fundur 703. mál: #A stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Miðnesheiði og Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Með lögum nr. 106/1954, um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl., var skýr lagaheimild veitt fyrir því að utanrrh. færi með alla opinbera stjórnsýslu á varnarsvæðum. Með lögum heyra málaflokkar sem falla að öllu jöfnu undir aðra ráðherra, undir utanrrh. þegar varnarsvæðin eiga í hlut. Stjórnsýsla utanrrh. á varnarsvæðunum tekur bæði til borgaralegrar og hernaðarlegrar starfsemi.

Í 8. gr. laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, segir:

Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum reglugerðar.

Þar segir í 10. tölul. 14. gr. um verksvið utanrrh. að hann fari með framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, þar á meðal innan marka varnarsvæðanna, lögreglumál, dómsmál, tollamál, póst- og símamál, flugmál, radarstöðvamál, heilbrigðismál, félagsmál og önnur þau mál er leiða af dvöl hins erlenda varnarliðs í landinu, sbr. lög nr. 106 frá 17. desember 1954, um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl. Þetta ákvæði segir að utanrrh. fari með stjórnsýsluvaldið innan þeirrar landfræðilegu afmörkunar sem varnarsvæðin eru.

Frá upphafi varnarsamstarfsins hefur verið litið svo á að öll stjórnsýsla á varnarsvæðunum, hverju nafni sem nefnist, sé í höndum utanrrn. Er það sá skilningur sem byggt hefur verið á í gegnum tíðina og sú túlkun sem almennt samstarf hefur verið um innan íslenska Stjórnarráðsins. Hæstiréttur staðfesti þessa túlkun með dómi hinn 22. mars sl. í máli nr. 368/2000.

Svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Keflavíkurflugvöllur er staðsettur innan varnarsvæðis á Miðnesheiði. Flugmálum á Keflavíkurflugvelli er í dag háttað þannig að skv. 10. tölul. 14. gr. reglugerðar nr. 96/1969, um Stjórnarráð Íslands, fer utanrrh. með flugmál innan markaða svæðanna, sbr. lög nr. 106/1954, um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl. Innanlandsflug sem gert er út frá Reykjavíkurflugvelli heyrir undir samgrh., skv. 3. tölul. 11. gr. sömu reglugerðar. Flytjist sú starfsemi sem nú fer fram á Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar mun hún að óbreyttum lögum heyra undir utanrrh. Málefni flugvalla utan höfuðborgarsvæðisins mundu þá heyra undir samgrh. enda eru slíkir flugvellir ekki á varnarsvæðum.

Rétt þykir að benda á að sú stefna hefur verið mörkuð af yfirvöldum flugmála og borgaryfirvöldum að Reykjavíkurflugvöllur sé áfram þar sem hann er nú a.m.k. til ársins 2016 og unnið er að endurbótum á honum af hálfu þessara aðila. Það verður því ekki séð að innanlandsflug flytjist til Keflavíkurflugvallar í bráð.

Ekkert virðist mæla með því að gera breytingu á lögum með það fyrir augum að tvö eða fleiri ráðuneyti fari með stjórnsýsluna á varnarsvæðunum. Þvert á móti er margt sem styður það að skipan málefna stjórnsýslunnar verði áfram með sama hætti og gerst hefur hingað til.

Um 2. tölul. fyrirspurnarinnar vil ég segja þetta: Hugmyndir um sameiningu sýslumannsembættanna í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli eru ekki nýjar af nálinni. Á árinu 1992 var hugað að kostnaði við að sameina þessi embætti í sparnaðarskyni. Ríkisendurskoðun fór ofan í kjölinn á því og komst að þeirri niðurstöðu að fjárhagslegur ávinningur af sameiningu embætta væri lítill. Forræði utanrrh. yfir löggæslu og yfirstjórn á varnarsvæðunum verður af ýmsum ástæðum ekki breytt meðan erlent herlið er í varnarstöðinni í Keflavík. Ef til sameiningar embættanna kæmi yrði nýtt embætti af þeim ástæðum að falla undir yfirstjórn utanrrh. Vald til setningar stjórnvaldsfyrirmæla yrði í höndum viðkomandi ráðuneyta, þ.e. dómsmrn. og fjmrn. en utanrrh. mundi setja sérreglur gagnvart varnarliðinu. Hefur þetta fyrirkomulag gilt hingað til og hefur nánast aldrei komið upp faglegur ágreiningur milli ráðuneyta um þessa framkvæmd.

Þess má geta að frá stofnun embættis ríkislögreglustjóra árið 1998 hefur öll fagleg umgjörð lögreglunnar í landinu styrkst mjög og vinnubrögð verið samræmd, þar með talið hjá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli.

Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu og aukin umsvif sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli kalla út af fyrir sig ekki á endurskoðun á lögsagnarumdæmum sýslumanna á Suðurnesjum. Enginn faglegur ágreiningur hefur risið milli utanrrn. og dómsmrn. í þessum efnum. Ráðuneytin eru sammála um framkvæmd mála vegna Schengen-samstarfsins og hefur samstarf þeirra gengið afar vel.

Um þriðja tölul. fyrirspurnarinnar. Utanrrh. hefur farið með stjórnsýsluvaldið á varnarsvæðunum um hálfrar aldar skeið. Í utanrrh. liggur þar af leiðandi fyrir mikil fagleg þekking á málefnum varnarsvæðanna og varnarliðsins í víðtækum skilningi. Íslensk stjórnvöld hafa ávallt lagt mikla áherslu á að varnarliðið hafi samskipti við aðeins eitt stjórnvald hér á landi og sé tengiliður þess við önnur íslensk stjórnvöld. Varnarliðið hefur verið samstiga íslenskum stjórnvöldum í þessum efnum. Varnarsamstarfið hefur alla tíð byggst á þessu sjónarmiði og hefur rík samstaða um það verið innan íslenska stjórnkerfisins.

Óhjákvæmilegt er að öll stjórnsýsla á varnarsvæðum heyri undir einn og sama ráðherra. Á varnarsvæðunum fer fram bæði borgaraleg og hernaðarleg starfsemi. Í framkvæmd eru tengsl á milli þessara tveggja þátta. Sem dæmi má nefna að starfsemi verktaka tengist með beinum hætti starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og eru í sameiginlegum notum varnarliðsins og flugfélaga sem sinna borgaralegu flugi. Vegna nálægðar varnarliðsins við borgaralega starfsemi á varnarsvæðum er talið afar mikilvægt að ávallt sé tekið tillit til sjónarmiða varnarliðsins og skipan þeirra mála. Yrði stjórnsýsluvaldi á varnarsvæðunum skipt á milli fagráðuneyta mundi þekking á málefnum varnarsvæðanna og varnarliðsins dreifast svo mjög að yfirsýn yfir þennan málaflokk yrði ekki lengur til staðar. Afar langan tíma þarf til að byggja upp viðlíka þekkingu í hinum ýmsu ráðuneytum.

Einnig ber að benda á að mannaskipti hjá varnarliðinu eru mjög tíð. Varnarliðsmenn dvelja hér að jafnaði stuttan tíma, 2--3 ár og öðlast ekki á svo skömmum tíma svo góða yfirsýn yfir íslenskt stjórnkerfi að þeir geti auðveldlega fetað sig um það. Það einfaldar því mjög alla framkvæmd og úrlausn mála, stórra og smárra, að varnarliðið hafi aðeins samskipti við eitt stjórnvald. Breyting á því mundi leiða til flóknari samskiptaleiða og draga mjög úr skilvirkni og samræmi við úrlausnir mála.