Stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Miðnesheiði og Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:15:59 (7230)

2001-05-09 10:15:59# 126. lþ. 117.1 fundur 703. mál: #A stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Miðnesheiði og Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég náði ekki alveg þessu síðasta hjá hæstv. forsrh. Hann var farinn að lesa nokkuð hratt.

Hv. þm. Kristján Pálsson hreyfir hér máli sem oft áður hefur borið á góma og það er sú fráleita skipan mála að eitt mikilvægasta samgöngumannvirki landsins, Flugstöð Leifs Eiríkssonar við Keflavíkurflugvöll, skuli heyra undir utanrrh. en ekki samgrh. Þetta er tímaskekkja og arfleifð frá þeirri tíð að allt var hér klæðskerasaumað utan um það pukur sem einkenndi samskiptin við erlenda hersetu.

Það sem er furðulegast er að stimamýktin við hinn erlenda her skuli enn þann dag í dag vera slík að svona augljósum atriðum sé ekki kippt í liðinn. Það sem þarna á að gera er að afmarka varnarsvæðið þannig að flugstöðin sé utan þess. Þá geta menn haft þetta eins og þeir vilja að öðru leyti. Byggingin er hvort sem er að mestu leyti utan flugvallargirðingarinnar. Það er fráleitt í öllu tilliti að færa fyrir því rök að þetta sé einhver nauðsyn vegna samskipta við herinn. Hitt blasir við að það er mjög umhendis að skipta samgöngumannvirkjum landsins þannig upp að sum þeirra heyri undir utanrrh. og önnur undir samgrh.