Stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Miðnesheiði og Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:17:30 (7231)

2001-05-09 10:17:30# 126. lþ. 117.1 fundur 703. mál: #A stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Miðnesheiði og Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:17]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Að sjálfsögðu er hér um mjög flókið mál að ræða. Ég viðurkenni það fyrstur manna. Ég vil ekki á nokkurn hátt með þessu vekja eitthvert uppnám gagnvart varnarliðinu. Ég hef margoft átt góð samskipti við varnarliðið um breytingar innan varnarsvæðanna sem hafa leitt til þess að stjórnsýsla og starfsemi á Suðurnesjum hefur getað blómstrað. Nefni ég þar t.d. Helguvík, en hafnarsamlagið og hafnarstjórnin á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ fékk afnot af Helguvíkurhöfn undir borgaralega höfn. Það var gert í góðu samráði við varnarliðið vegna brýnnar nauðsynjar á þeim tíma. Hægt er að benda á margt annað sem hefur farið vel í samstarfi þessara tveggja aðila.

Ég tek þetta hér upp vegna þess að ég sé að ákveðið vandamál er að koma opinberri stjórnsýslu fyrir á Suðurnesjum út af því hvernig þessu er fyrir komið. Þess vegna getur sú hugmynd gengið út af fyrir sig í frekari vinnslu að setja upp eitt ákveðið stjórnsýsluhús þannig að umráðin og samskiptin við varnarliðið verði ávallt í höndum utanrrh. Ég tek fram að mjög mikilvægt er að ekki sé verið að skipta því sem snýr að varnarliðinu. En það sem snýr að borgaralegri starfsemi er í gíslingu. Ég vona, herra forseti, að þetta mál verði tekið til skoðunar af hæstv. forsrh., utanrrh. og dómsmrh. sem fyrst.