Þjóðlendur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:42:07 (7241)

2001-05-09 10:42:07# 126. lþ. 117.3 fundur 689. mál: #A þjóðlendur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:42]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Markmið laganna um þjóðlendur, eins og ég hef skilið þau, var að ákvarða svæði miðhálendisins sem skyldi flokkast sem þjóðlenda eða almenningar utan eignarlanda. Þar sem árekstrar væru um eignarhald á landi skyldi leita samkomulags eða útkljá með dómi eftir ferli sem lögin settu.

Framkvæmdin á þessum lögum virðist koma nánast öllum í opna skjöldu. Í stað þess að skilgreina það land sem æskilegt er eða eðlilegt að verði þjóðlenda eða almenningar setur ríkið fram kröfur til lands sem nær frá hálendi til sjávar, eins og raunin er í Austur-Skaftafellssýslu. Í stað skilgreininga á landsvæðum snýst málið um lagagildi fornhelgra eignarréttinda. Eigi þjóðlendukröfurnar að snúast um slíkar lagakröfur ber að taka allt landið fyrir en ekki bara einstakar bújarðir bænda.

Það getur verið sjónarmið út af fyrir sig að ríkið eigi allt land og búsetan og landnotin, hvort heldur í dreifbýli eða þéttbýli, séu einungis lögvarinn afnotaréttur en þá skal jafnt yfir alla ganga.

Miklar deilur spunnust þegar fjmrh. lýsti kröfum til lands í Árnessýslu. Þá féllu orð í Ríkisútvarpinu 13. mars 2000 hjá hæstv. landbrh., með leyfi forseta:

,,... að nefndin fari offari í kröfum sínum og fjmrh. hafi gengið lengra í kröfum sínum en þjóðlendulögin gefa tilefni til.``

Ég gæti vitnað í hæstv. ráðherra eins og Halldór Ásgrímsson og hæstv. ráðherra Pál Pétursson og fleiri þingmenn sem lýst hafa sömu skoðun opinberlega en ekkert sýnilegt aðhafst.

En látum svo vera að þessi kröfugerð hafi komið fram á einu svæði, hefði þá ekki verið rétt að bíða úrskurðar óbyggðanefndar áður en lengra yrði haldið? En, herra forseti, birting þess úrskurðar dregst og dregst og er hann ókominn enn. En ríkisstjórnin beið ekki þessa úrskurðar heldur lagði fram í vetur kröfur á hendur Austur-Skaftfellingum þar sem beitt var sama offorsi og yfirgangi. Fjöldi manns ver nú miklum fjármunum og vinnu í að safna lögskýringargögnum, lesa forn rit og máð skjöl, því að þinglýst landamerki og eignarhöld skipta þar litlu. Herra forseti, hefur ríkið og íbúar landsins ekki eitthvað annað með tímann og fjármuni að gera?

Nú síðast, 28. apríl sl., var boðað að kröfugerðarnefnd fjmrh. legði fram landakröfu sína gagnvart Vestur-Skaftfellingum og Rangæingum sem verða vafalaust í sama dúr.

Herra forseti. Því leyfi ég mér að beina eftirtöldum fyrirspurnum til hæstv. fjmrh.:

1. Hvenær er að vænta úrskurðar óbyggðanefndar um mörk þjóðlendna í Árnessýslu?

2. Kemur til greina að fresta nú þegar frekari kröfugerð á öðrum landsvæðum uns sá úrskurður liggur fyrir í ljósi þeirrar miklu óánægju sem orðið hefur vart með vinnubrögð og kröfugerð ráðuneytisins við ákvörðun þjóðlendna?

3. Kemur til greina að endurskoða frá grunni vinnubrögð við framkvæmd laga um þjóðlendur og móta nýjar verklagsreglur fyrir kröfugerð ríkisins til þjóðlendna sem væru nær anda laganna?

4. Kemur til greina að ráðherra afturkalli kröfurnar sem hann hefur sett fram gagnvart landeigendum í Austur-Skaftafellssýslu og vinni þær upp á nýtt ef úrskurður óbyggðanefndar í Árnessýslu verður mjög fjarri þeirri kröfugerð sem hann setti fram í upphafi?

Herra forseti. Þessi spurning gildir einnig um þær kröfur sem hugsanlega hafa verið settar fram gagnvart Vestur-Skaftfellingum og Rangæingum.