Þjóðlendur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:50:58 (7243)

2001-05-09 10:50:58# 126. lþ. 117.3 fundur 689. mál: #A þjóðlendur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:50]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það kom fram í svörum hæstv. fjmrh. að óbyggðanefnd ákveður hvaða svæði skuli taka til meðferðar. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um forgangsröðun. Ég spyr vegna þess að manni finnst varðandi kröfugerð ríkisins að þau svæði hefðu átt að hafa forgang þar sem mestu hagsmunir voru í húfi. Og það er í mínum huga engin spurning að það eru svæðin í kringum höfuðborgarsvæðið sem langmest brennur á. Hér er á allra síðustu vikum verið að hleypa af stað t.d. samkeppni í orkuvinnslu, nú síðast með stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja með samvinnu við Hafnfirðinga. Þess vegna hlýtur það að liggja í augum uppi að einmitt hér í kringum þetta svæði, höfuðborgarsvæðið, liggja mestu hagsmunirnir.

Það hlýtur að vera svo að hæstv. fjmrh. og óbyggðarnefndarmenn tali saman og að hæstv. fjmrh. geti haft einhver áhrif á það hvaða svæði eru tekin til meðferðar, þ.e. hvaða tillögur óbyggðanefndin gerir, í staðinn fyrir að vinna er hafin á stórum landsvæðum þar sem bændur búa dreift og eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.