Reikningsskil og bókhald fyrirtækja

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:07:19 (7249)

2001-05-09 11:07:19# 126. lþ. 117.4 fundur 691. mál: #A reikningsskil og bókhald fyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:07]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin sem hann veitti við spurningum mínum. Ég geri mér grein fyrir að þær eru töluvert veigamiklar og erfitt að gera þeim skil á þeim stutta tíma sem hæstv. ráðherra og okkur þingmönnum er úthlutað í fyrirspurnatímum.

Ég fagna þeim svörum hæstv. ráðherra og þá sérstaklega hvað varðar verðbólgureikningsskilin. Þegar fyrirspurnin var lögð fram höfðu menn búið við lága verðbólgu um nokkurt skeið, eins og ég sagði áðan. Menn töldu þá að tími væri kominn til að gera slíkar breytingar, enda hafa bæði nefndin sem hæstv. ráðherra vitnaði í og Félag löggiltra endurskoðenda fjallað um þessi mál, tekið þau upp á arma sína og lagt þetta til vegna þess að verðbólga hafði verið lág í tiltölulega langan tíma.

Í framhaldi af því vildi ég bæta við einni spurningu, ef hæstv. fjmrh. hefði tíma til að svara því á eftir: Telur hæstv. fjmrh. að nýlegar breytingar á gengi íslensku krónunnar og síðustu tvær verðbólgumælingar sem sýnt hafa 13--15% verðbólgu og 6--7% verðbólgu á ársgrundvelli, gengisfall íslensku krónunnar og þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað, 20% gengisfelling á dollar miðað við íslenska krónu frá áramótum sem er mikið, bendi til þess að verðbólgan sé aftur að fara á skrið? Þarf kannski að seinka þessum áformum vegna þess að, eins og við ræddum áðan og hæstv. ráðherra gat um, þetta fyrirkomulag gaf miklu betri mynd af afkomu fyrirtækjanna meðan verðbólga var mikil.

Hæstv. forseti. Tími minn er á þrotum en ég þakka fyrir svör hæstv. ráðherra og vona að efnahagsmálin muni þróast í þá veru að við getum tekið verðbólgureikningsskilin út sem allra fyrst.