Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:18:00 (7253)

2001-05-09 11:18:00# 126. lþ. 117.5 fundur 556. mál: #A Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:18]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þá upptalningu sem kom fram í svari hæstv. umhvrh. og sú upptalning á þessum metnaðarfullu verkefnum sem unnin hafa verið undir forsvari stöðvarinnar er náttúrlega hin glæsilegasta og ætti að sýna þeim sem í vafa hafa verið um gildi þess starfs sem unnið er hjá náttúrurannsóknastöðinni, að hér er af metnaði haldið á málum.

Ég vil bara ítreka það að þær rannsóknir sem taldar hafa verið upp í máli hæstv. umhvrh. eru rannsóknir á heimsmælikvarða sem vitnað er til í erlendum vísindatímaritum og hefur slíkt rekið á mínar fjörur oftar en einu sinni. Og ég vil fagna þeim orðum sem hv. þm. Halldór Blöndal lét falla áðan um að hann sjái fyrir sér að það sé og verði metnaðarfullt starf hjá rannsóknastöðinni árið um kring, starfsemi sem sveitarfélaginu sé til framdráttar, og ég tel að listi umhvrh. hafi sýnt að slíkt starf er unnið þarna.