Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:21:29 (7255)

2001-05-09 11:21:29# 126. lþ. 117.5 fundur 556. mál: #A Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:21]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði í upphafi eru ekki fyrirhugaðar neinar breytingar af hálfu umhvrn. varðandi rannsóknastöðina. Hún er rekin í Mývatnssveit. Ég tel að það sé ekki réttmætt sem hér kemur fram að forstöðumaður hennar hafi ekki skilið sjónarmið heimamanna. Ég tel að hann hafi reynt að standa sig afburða vel í vísindastörfum sínum og rekstri stöðvarinnar og hann er búsettur í Mývatnssveit og hefur tekið þátt í því lífi sem þar fer fram.

Varðandi þá gagnrýni sem hér kemur fram að ekki séu stundaðar hagnýtar rannsóknir í Mývatni, þá er það ekki alls kostar svo. Það eru hagnýtar rannsóknir og ég get nefnt sem dæmi t.d. vöktunina á silungsstofninum sem er atriði sem skiptir bændur í Mývatnssveit verulegu máli eins og fyrirspyrjandi þekkir. Síðan má ekki gleyma einu og það er kannski rótin að þessari umræðu um stöðina og þeim deilum sem hafa orðið um Mývatn almennt, þ.e. er Kísiliðjan. Náttúrurannsóknastöðin hefur dregist inn í þær deilur sem kannski er eðlilegt að vissu leyti. Það takast á náttúrusjónarmið og iðnaðarsjónarmið þar en vegna Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn hafa orðið til gífurlega mikil gögn og þau gögn eru m.a. notuð í umhverfismati sem hefur nýlega farið fram á Kísiliðjunni og hafa þau verið hagnýtt með ýmsu móti má segja til þess að komast að niðurstöðu í umhverfismatinu. Þannig að ef Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn hefði ekki verið til, þá hefðu menn ekki getað skoðað eins vel lífríki vatnsins til að geta byggt á niðurstöðu varðandi Kísiliðjuna. Ég tel því að menn ættu að vera nokkuð þokkalega sáttir með þessa stöðu og reyna að styrkja Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn með öllum hætti vegna þess að þar hefur forstöðumaður og aðrir reynt að standa sig mjög vel.