Stóriðja í Hvalfirði

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:23:50 (7256)

2001-05-09 11:23:50# 126. lþ. 117.6 fundur 559. mál: #A stóriðja í Hvalfirði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:23]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég ber fram þrjár spurningar til hæstv. umhvrh.:

1. Hve mikið mun losun gróðurhúsalofttegunda aukast við fyrirhugaða stækkun álvers Norðuráls í Hvalfirði?

2. Er þörf á mótvægisaðgerðum eða kaupum á mengunarkvóta af þeim sökum til að hægt sé að fylgja öðrum ríkjum í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda?

3. Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að Norðuráli verði gert að bera kostnað af hugsanlegum mótvægisaðgerðum eða kaupum á mengunarkvóta náist alþjóðasamkomulag um tilteknar mótvægisaðgerðir og framseljanlega mengunarkvóta?

Ætlun mín með þessum spurningum, hæstv. forseti, er að reyna að leiða fram hver stefna stjórnvalda er í umhverfismálum og þátttöku í því að leysa úr vandamálum á alheimsvísu og hvernig ríkisstjórnin ætlar að vinna að þessum málum í tengslum við þá stóriðju sem er fyrirhuguð hér í landinu. Fyrir liggur nú þegar að frá því að Kyoto-bókunin var gerð á sínum tíma hefur verið ákveðið og reyndar er búið að margfalda framleiðslu áls í landinu. Hugmyndirnar um viðbót hvað þá framleiðslu varðar eru svo stórkostlegar að við erum líklega að tala um að fara, frá því að bókunin var gerð á sínum tíma, úr um 130 þús. tonna framleiðslu á áli upp í um 500--600 þús. tonna framleiðslu. Þetta hlýtur að kalla á svör við þeim spurningum sem ég legg hér fram. Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að tryggja það að þau geti leiðst með öðrum þjóðum heimsins út úr mengunarþokunni sem grúfir yfir þessari jarðkúlu og verði þá ekki viðskila við þann hóp sem ætlar að taka ábyrgð í framtíðinni á því að þjóðir heimsins geti búið með sjálfbærum hætti á jörðinni?

Ég vonast til að í svörum hæstv. ráðherra komi skýrt fram hvernig menn ætla að leiða saman þessar fyrirætlanir og það að geta verið með öðrum þjóðum í því stórkostlega verkefni sem er að ná tökum á mengun á jörðinni.