Stóriðja í Hvalfirði

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:29:32 (7258)

2001-05-09 11:29:32# 126. lþ. 117.6 fundur 559. mál: #A stóriðja í Hvalfirði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:29]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er hins vegar ekki alveg nógu ánægður með svarið við annarri spurningunni. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að gera svolítið nákvæmar grein fyrir hvað hún átti við með því svari, hvort hún telji að engin hætta sé á því að það verði erfitt að fylgjast með öðrum þjóðum í sambandi við aukningu á gróðurhúsalofttegundum ef ekki verður hægt að gera það með þeim hætti sem hér er nefnt, þ.e. með einhvers konar mengunarkvótum og öðru slíku miðað við þær stórkostlegu fyrirætlanir um aukningu sem fram undan eru í framleiðslu á áli ef það yrði niðurstaðan.

Mig langar síðan til að segja að ég er ánægður með að heyra að í samningunum við Norðurál og önnur fyrirtæki sem eiga hlut að máli verði tekið á því hvað varðar þennan útblástur að hluta til, en ég endurtek að ég tel að það þurfi að koma skýrar fram að það verði að öllu leyti á ábyrgð þeirra framleiðenda sem hér eru í stóriðju að taka á hvað varðar aukningu á mengun sem fjallað er um í Kyoto-bókuninni og verður innifalin í því samkomulagi sem vonandi verður að veruleika milli þeirra þjóða sem þarna eiga hlut að máli. Þetta finnst mér skipta miklu máli og ég held að menn megi alls ekki ganga frá samningum um viðbætur í stóriðju öðruvísi en að hafa þær tryggingar sem ég er að tala um. Ég held að þurfi að fá mjög greinargóða skýrslu og svör um þessi efni þegar samningar liggja fyrir.